Berglind Ýr Ingvarsdóttir útskrifast í júní af sameiginlegri braut Menntaskóla Borgarfjarðar og búfræðibraut Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Hún útskrifast því samtímis með stúdentspróf af búfræðisviði náttúrufræðibrautar og búfræðipróf. Nemendur þessarar sameiginlegu brautar taka fyrstu tvö námsárin í menntaskólanum og leggja þá áherslu á kjarnagreinar til stúdentsprófs og valdar greinar á sviði raunvísinda. Síðan taka við tvö ár í búfræðinámi á Hvanneyri.
Námsleiðin veitir nemendum góðan undirbúning fyrir háskólanám á sviði náttúruvísinda, búvísinda og dýralækninga. Jafnframt öðlast nemendur þekkingu og færni til að takast á við búrekstur og störf í landbúnaði.