Gestafyrirlesari úr röðum nemenda

RitstjórnFréttir

OLYMPUS DIGITAL CAMERAAlgengt er að svokallaðir gestafyrirlesarar heimsæki Menntaskóla Borgarfjarðar og kynni margvísleg málefni. Nýverið bar þó svo við að gestafyrirlesari kom úr röðum nemenda. Torfi Lárus Karlsson, nemandi á öðru ári í MB, sagði samnemendum sínum í líffræðiáfanga frá sjúkdómnum „lymphatic malformations“ og sýndi myndir sem tengjast ævilangri glímu hans við sjúkdóminn. Sjúkdómurinn, sem er afar sjaldgæfur, lýsir sér með ofvexti í sogæðum og veldur bólgum í vefjum sem þenjast út. Torfi Lárus, sem er fæddur árið 1997,  hefur gengið í gegnum ótal aðgerðir bæði hér á landi og erlendis og dvalið langdvölum á sjúkrahúsum. Hann lætur það þó ekki aftra sér og heldur ótrauður áfram skólagöngunni.

Torfi Lárus gekk í grunnskólann í Borgarnesi og stundar nú nám á öðru ári í MB. Kennari hans í líffræði er Þóra Árnadóttir og þess má geta að innan skamms heldur hún ásamt Torfa og samnemendum hans í náms- og kynnisferð til Svíþjóðar.