Heimsókn forseta Íslands á forvarnardegi

Lilja Ólafsdóttir Fréttir

Formenn nemendafélags MB Elís Dofri og Grunnskólans í Borgarnesi Elínóra Ýr ásamt Guðna forseta.

Nemendur og starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar og unglingastigs Grunnskólans í Borgarnesi héldu uppá forvarnardaginn 2019 í dag. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson heimsótti skólana í Hjálmaklett í tilefni dagsins og ávarpaði hópinn. Hann talaði um mikilvægi þess fyrir heilsuna að fá nægan svefn og hvaða áhrif neysla orkudrykkja í miklum mæli geti haft. Hann kom inn á aukna notkun rafretta og hættuna á því að rafrettur væru fyrsta skrefið í að hefja almennar reykingar. Þá ræddi hann um það að forvarnir snérust ekki um að banna alla hluti, slíkt virkaði í raun ekki heldur lagði hann áherslu á fræðslu, mikilvægi samveru fjölskyldunnar og bað nemendur um að fara með þau skilaboð heim.

Nemendur skólanna unnu hópaverkefni er vörðuðu forvarnir en Guðni gekk á milli hópa og spjallaði við nemendur og söng meira að segja afmælissönginn fyrir eina stúlku í 9. bekk. Eftir hópavinnuna var boðið upp á kaffi, svala, kleinur og ávexti en dagurinn endaði á erindi frá Sölva Tryggvasyni fjölmiðlamanni þar sem hann fjallaði hvað mest um svefn og orkudrykki.

Dagurinn gekk mjög vel og starfsfólk og nemendur skólanna ánægðir með útkomuna.