Heimsókn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

RitstjórnFréttir

Nýlega fóru kennarar Menntaskóla Borgarfjarðar í kynningar- og vinnuferð í Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem staðsettur er í Grundarfirði. Skólarnir tveir eiga margt sameiginlegt, þeir telja hvor um sig innan við tvö hundruð nemendur, mikil áhersla er lögð á upplýsingatækni og allt nám er skipulagt með aðstoð kennslukerfisins Moodle.  Námsmat í báðum skólum byggir á leiðsagnarmati þar sem kennarar meta vinnu nemenda með reglubundum hætti alla önninna og veita stöðuga endurgjöf.

Eftir skoðunarferð um skólahúsnæðið í fylgd Jóns Eggerts Bragasonar skólameistara hófst fundur þar sem kennarar beggja skóla miðluðu af reynslu sinni. Borgfirðingar fluttu erindi um innleiðingu nýrrar aðalnámskrár sem unnið hefur verið að af miklum krafti í MB á skólaárinu sem nú stendur yfir. Innleiðingunni á samkvæmt lögum að vera lokið í öllum framhaldsskólum árið 2015 og er hún afar misjafnlega á veg komin í skólum landsins. Snæfellingar fjölluðu um leiðsagnarmat og svokallaða vendikennslu. Miklar umræður um nám og kennslu áttu sér stað og voru menn sammála um gagnsemi funda og skoðanaskipta af þessu tagi.