Dagskráin var fjölbreytt að vanda og ýmislegt gert bæði til fróðleiks og skemmtunar. Í þessari heimsókn reyndi ekki síst á tungumálakunnáttu. Hópur nemenda frá NFU var með nemendum MB alla dagana og lögð var áhersla á að nemendur gætu myndað tengsl sín á milli. Dagskráin var mjög áhugaverð. Sögulegar heimsóknir voru í víkingaþorpið í Fotovik, dómkirkjuna í Lundi og byggðasafnið á sama stað. Þá skoðuðu nemendur nútímalega sorpmótttöku; Sysav. Þar er lögð mikil áhersla á endurvinnslu alls sorps sem hægt er að endurvinna, en það sem ekki er hægt að endurvinna er brennt á vistvænan hátt og orkan er notuð til húshitunar á svæðinu. Nemendur fengu innsýn í DNA rannsóknir í heimsókn í dýragarðinn í Kaupmannahöfn, skoðuðu sýninguna „Body Worlds“, og fóru á „Science Slam“ í háskólanum í Lundi og hlýddu á nemendur þar kynna rannsóknarverkefni sín.
Að auki gafst svo tími til að versla lítið eitt, við heimsóttum heimavöll Malmö FF og ýmislegt var til gamans gert á meðan á ferðinni stóð. Svíarnir tóku á móti okkur af mikilli gestrisni og það verður gaman að taka á móti þessum sama hópi í apríl á næsta ári.