Íslensku menntaverðlaunin

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

 Íslensku menntaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 2. nóvember.

Þar fékk Menntaskóli Borgarfjarðar hvatningarverðlaun íslensku menntaverðlaunanna fyrir framsækna endurskoðun á námskrá.

Menntaskóli Borgarfjarðar fór í gerð þessara breytinga með það að leiðarljósi að búa nemendur sem best undir líf og störf í síbreytilegu samfélagi. Stóru málin í heiminum eins og fjórðu iðnbyltinguna, umhverfismálin og heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun, ásamt lýðfræðilegum áskorunum er kalla á aukna nýsköpun á öllum sviði mannlífs og samfélags.

Það gerir skólinn með því að leggja enn meiri áherslu á að við útskrift búi ungt fólk yfir hæfni og eiginleikum til að geta tekið þátt í að móta nýjar lausnir í góðri samvinnu við aðra og þvert á greinar til þess að mæta áskorunum í nútíð og framtíð. Áhersla er lögð á skapandi og greinandi hugsun, virka þátttöku og samfélagslegar tengingar, tæknilæsi og mat á upplýsingum, öflun og miðlun þekkingar og upplýsinga með faglegum hætti, samstarfs- og samskiptahæfni, þrautseigju og mat á eigin framvindu.

Kennarar skólans hafa, í víðtæku samráði, meðal annars við nemendur, innleitt svokallað Lífsnám, sem eru áfangar um það sem skiptir máli í lífinu að mati nemenda; kynlíf, geðheilbrigði, fjármál, umhverfismál, jafnrétti og mannréttindi. Stafrænni hönnun og miðlun hefur verið fléttað inn í alla áfanga og allir nemendur leggja stund á áfanga þar sem þeir takast á við vísindi, tækni, verkfræði, listsköpun og stærðfræði (STEAM-áfanga). Þá hefur verið komið á fót í skólanum náms- og kennslurými fyrir fjölbreytta og skapandi vinnu sem ber heitið Kvikan og hefur það hlutverk að styðja við nám og kennslu í öllum áföngum skólans með aðgengi að tækjum og hugbúnaði til sköpunar í víðum skilningi og miðlunar efnis.

Fulltrúar Menntaskóla Borgarfjarðar tóku við verðlaunum úr hendi Gerðar Kristnýjar rithöfundar.

Fern önnur menntaverðlaun voru afhent við sama tækifæri og sjá má nánar um þetta á heimasíðu Íslensku menntaverðlaunanna. https://skolathroun.is/menntaverdlaun/

 

Nánar má fræðast um skólaþróunarverkefni MB hér https://menntaborg.is/skolathroun/