Kennarar og starfsfólk fóru með sigur af hólmi á áskorendadegi

Ritstjórn Fréttir

Frá því að skólinn var stofnaður hefur svokallaður áskorendadagur ætíð verið haldinn síðla hausts. Þá keppa nemendur og starfsfólk skólans um veglegan farandbikar. Af óviðráðanlegum orsökum gafst ekki tími fyrir áskorendadaginn í haust sem leið en þess í stað fór keppnin fram miðvikudaginn 11. febrúar. Keppt var í splong dong og ýmiss konar þrautaboðhlaupum, kappáti, söng og loks var spurningakeppni í anda Gettu betur. Skemmst er frá því að segja að starfsfólk skólans fór með sigur af hólmi í öllum keppnisgreinum nema söng en að vísu var sigurinn í átkeppninni dæmdur af þeim og úrskurðað að þar hafi liðin staðið jöfn að vígi.