Kennsla hefst klukkan 09:00 í MB

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Á vorönn var lagt af stað með þó nokkrar breytingar á stundatöflu og fyrirkomulagi kennslunnar. Bæði hafa kennslustundir farið úr því að vera að jafnaði 2*40 mínútur í 1*60 sem og að nú eru vinnustundir tvisvar í viku. Við þessar breytingar á skipulagi opnuðust möguleikar á hefja kennslu síðar en venjan hefur verið. Nú á vorönn hefst öll kennsla klukkan 09:00 á morgnana.

Mikilvægi svefns til að halda góðri heilsu og efla vellíðan er okkur í MB hugleikin. Hjá ungu fólki verða miklar breytingar á svefnmynstri á unglingsárunum og m.a. færist dægursveiflan eða líkamsklukkan til og verður allt að þremur klukkustundum seinni en hjá fullorðnu fólki sem er m.a. ástæða þess að unglingar fara seinna að sofa á kvöldin en þeir voru vanir að gera. Þ.a.l. eiga þeir erfiðara með að vakna snemma á morgnana en auk þess þurfa þeir meiri svefn en fullorðnir og hefur ítrekað verið sýnt fram á að áhrif svefns á minni og nám eru mikil.

Samkvæmt rannsóknum Rannsóknar og greiningar (2018) um svefnvenjur framhaldsskólanema kom í ljós að um 70% framhaldsskólanema sofa of lítið hér á landi.

Við erum því mjög spennt með að gera þessa tilraun að byrja skóladaginn aðeins seinna og virðist vera almenn ánægja með þetta fyrirkomulag hjá nemendum.