Kvikmyndagerð hefur áhrif á skólalífið

RitstjórnFréttir

Það hefur vart farið framhjá neinum að nú standa yfir tökur á myndinni The Secret Life of Walter Mitty hér á Vesturlandi. Atriði í myndinni verða tekin upp í Menntaskóla Borgarfjarðar og af þeim sökum fellur kennsla niður mánudaginn 3. september næstkomandi.  Myndin byggir á samnefndri smásögu eftir bandaríska rithöfundinn James Thurber en hún er talin meðal meistaraverka bandarískrar smásagnaritunar.  Það er leikarinn góðkunni Ben Stiller sem fer með hlutverk Mittys og hann er jafnframt leikstjóri myndarinnar.

Í sögunni greinir frá Walter Mitty sem er í bæjarferð með stjórnsamri eiginkonu sinni. Walter er frekar misheppnaður; hann er lélegur ökumaður, klaufi við flesta hluti og óttalega gleyminn. Walter hefur hins vegar einstaklega frjótt ímyndunarafl og hann notar það óspart til þess að stytta sér stundir í bæjarferðinni.

Sem dæmi um vinsældir og áhrif sögunnar má nefna að nafnið Walter Mitty og lýsingarorðið „mittyesque“ hafa ratað inn í enskar orðabækur og eiga þar við fólk sem eyðir tíma sínum í dagdrauma og þykist vera eitthvað annað og meira en það í raun er.