Kynjafræði verkefni – Útlitsdýrkun

RitstjórnFréttir

Undanfarnar vikur hafa nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar athugað stöðu kynjanna í fjölmiðlum. Í einu verkefnanna var rætt um birtingarmynd kynjanna og staðalímyndir í hátísku. Þar kom fram að kvenfatnaðariðnaðurinn mun stærri en karlfatnaðariðnaðurinn, er það fyrst og fremst vegna þess að markaðurinn er stærri fyrir kvenfata hönnuði og stoðkerfið í kringum hönnunina er meira. Karlkyns fyrirsætur fá einnig margfalt lægri laun en kvenfyrirsætur, karlfatalínur fá sömuleiðis mun minni athygli og fjárfestingar en kvenfatalínur. Af hverju er þessi munur til staðar? Það mætti í fljótu bragði telja að tískuiðnaðurinn geri meira út á útlitsdýrkunn kvenna heldur en karla. Um það bil 50 – 70% unglingsstelpa, allt niður í sjö ára aldur, segjast óánægðar með eigin líkama. Rannsóknir hafa sýnt að ef konur líta jákvætt til staðalímynda í fjölmiðlum þá eru þær líklegri til að þróa með sér einkenni átraskana. Mikilvægi viðhorfs og skoðana er hér grundvöllurinn að því að fólk verði fyrir neikvæðum afleiðingum staðalímynda og neyti frekar efnis sem gengur út á útlitsdýrkun, t.d. lífstílstímarit og útlitsblogg.

Af hverju hefur þróunin orðið á þennan veg? Talið er að konur líti á líkama sinn í fagurfræðilegu ljósi á meðan karlmenn líta á sinn líkama með tilliti til virkni hans og starfsemi. Rengluvaxnir menn eru líklegri til að verða fyrir stríðni á meðan renglulegar konur eru gjarnan taldar aðlaðandi. Rannsóknir sýna að á forsíðum vinsælla tískutímarita frá 1959 til 1999 minnkaði líkamsstærð fyrirsætanna töluvert á 9. áratuginum, og í kjölfarið varð líkami fyrirsætanna brennipunktur myndatökunnar frekar en andlitið.

En hvað með útlitsdýrkun karlmanna? Drengir eru sáttari en stúlkur við þyngd sína og reyna frekar að auka hana með styrktarþjálfun frekar en að grennast. Áhrif fjölmiðla eru mismunandi á kynin vegna ólíkra staðalímynda. Áherslan á vöðva og styrkleika setur gríðarlegan þrýsting á unglingsstráka og snúa margir sér að ólöglegri steranotkun til að auka sem mest við vöðvamassa. Talið er að steranotkun unglingspilta sé jafn algeng og átraskanir unglingsstúlkna. Steranotkunin er e.t.v. vísbending um að drengir eru að eltast við líkamsbyggingu frægra íþróttamanna sem prýða mörg auglýsingaskiltin.

Af hverju reyna drengir frekar að auka vöðvamassa sinn frekar en að léttast? Svarið gæti falist í hlutverkaskiptingu kynjanna fyrr á öldum, þegar karlmaðurinn vann erfiðisvinnu úti á meðan konan sinnti heimilisstörfum fyrir fjölskylduna. Karlmaður sem sjá fyrir fjölskyldunni var sterkur, harður af sér og sjálfstæður. Vinsælir  fótboltamenn eru miklar fyrirmyndir ungra drengja. Auglýsingaskrifstofur sjá þar leik á borði því fótboltamenn hafa tvo kosti: Þeir eru í góðu líkamlegu formi og falla því vel í sterkbyggðu staðalímyndina, og eiga einnig stóran, greiðan aðdáendahóp. Ronaldo, Messi og Beckham eru dæmi um íþróttastjörnur sem skreyta auglýsingaskilti víðan um heim, og velta má fyrir sér áhrifum slíkra auglýsinga á sjálfsálit unglingsdrengja.

Mun meira efni hefur verið skrifað um útlitsdýrkun kvenna en karla. Strákar finna hins vegar líka fyrir útlitskröfum samfélagsins og er það áhugavert framtíðarverkefni að athuga enn nánar mismunandi þau mismunandi áhrif sem útlitsdýrkunn innan tískuiðnaðarins hefur á kynin.