Singstar

Líf og fjör í MB

Ritstjórn Fréttir

SingstarÓvenju mikið hefur verið um að vera í Menntaskóla Borgarfjarðar að undanförnu. Nemendur slá ekki slöku við hvað námið varðar og félagslífið blómstrar. Á þriðjudag fór fram árleg áskorendakeppni milli nemenda og kennara. Háðar voru Gettu betur og Singstar keppnir í skólanum og lauk þeirri fyrri með sigri kennara og hinni síðari með sigri nemenda. Í íþróttahúsinu var keppt í ýmsum greinum og þrátt fyrir að kennarar hafi sýnt góð tilþrif og ótrúlega takta þá lauk þeim viðureignum öllum með sigri nemenda.

Sýningum á söngleiknum Litlu hryllingsbúðinni lauk á þriðjudagskvöld.  Sýningar voru átta talsins og áhorfendur alls á fimmta hundrað. Mikil ánægja er með sýninguna enda stóðu allir þeir sem að henni komu sig með mikilli prýði og blómstruðu jafnt í leik sem söng.

Nýverið kom 2. tölublað skólablaðsins Eglu út. Í blaðinu kennir ýmissa grasa; þar má meðal annars finna viðtöl við Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta og Egil Ólafsson söngvara auk margvíslegra tíðinda úr skólastarfinu.

Miðvikudagskvöldið 12. des. stendur nemendafélagið fyrir jólaskemmtun  þar sem boðið verður upp á heitt kakó og notalega samverustund með skemmtiatriðum af ýmsu tagi. Dagskráin hefst klukkan 21.00 og er öllum opin. Miðasala við innganginn.

Jólabingó útskriftarfélags Menntaskóla Borgarfjarðar verður haldið fimmtudagskvöldið 13. des. Þar verður boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð og fjölbreytta vinninga. Bingóið hefst klukkan 19.00 en húsið verður opnað 18.30. Allir eru velkomnir.

18. desember er síðasti kennsludagur fyrir jól. Þá verður að venju borinn fram „jólamatur“ í hádeginu og nemendur bjóða upp á dans- og söngatriði.

zp8497586rq