Þingmennirnir Árni Páll Árnason, Guðbjartur Hannesson og Katrín Júlíusdóttir heimsóttu Menntaskóla Borgarfjarðar þann 3. september. Með þeim í för var Stefán Rafn Sigurbjörnsson stjórnmálafræðinemi og formaður Ungra jafnaðarmanna. Heimsóknin í MB markaði upphafið á fundaferð fjórmenninganna um Vesturland þar sem þeir kynna stefnumál sín í fyrirtækjum, stofnunum og á opnum fundum. Eftir spjall á kaffistofu kennara fóru gestirnir í kennslustund í stjórnmálafræði og ræddu við nemendur. Fjörlegar umræður og skoðanaskipti áttu sér stað og eins og gefur að skilja voru uppi margar skoðanir. Árni Páll sagði á facebook síðu sinni að hann hefði verið aðeins kaldur eftir sumarhléið en eftir klukkutíma rabb við þennan öfluga hóp nemenda væri allt komið „í fullan gír“.