Lýðræði – Skuggakosningar

RitstjórnFréttir

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Þessa viku standa yfir haustdagar í Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem nemendur vinna með hugtakið lýðræði og vinna verkefni þar sem lýðræðisleg vinnubrögð eru í fyrirrúmi. Þema þessara haustdaga á vel við því að lýðræðisdagar og skuggakosningar fara nú fram í framhaldsskólum landsins. Upplýsingar um skuggakosningarnar er hægt að finna á vefsíðunni www.egkys.is

Í gær komu frambjóðendur stjórnmálaflokka í heimsókn og hittu nemendur á einskonar hraðstefnumóti, fóru milli borða og kynntu fyrir nemendum helstu áherslumál síns flokks og spjölluðu við nemendur um allt milli himins og jarðar, “…allt frá skattaskjólum til veganisma og eiginlega flest þar á milli” eins og einn frambjóðandinn hafi á orði í facebook færslu sinni.

Í dag hafa nemendur verið að vinna í hópum með álitamál þar sem þeir þurfa að koma með rök með og á móti viðkomandi álitaefni og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þeir fá fyrirlestur frá nemendum við Háskólann á Bifröst um kynningar og framkomu enda þurfa nemendur að kynna verkefnin sín á sal á morgun fimmtudag milli klukkan 10:00 og 12:00.

Opið hús verður í MB á meðan kynningar standa yfir. Við vonumst eftir að sjá metnaðarfull verkefni og kynningar. Að öllu loknu býður skólinn nemendum og starfsfólki í pylsupartý.

Föstudaginn 14. október er vetrarfrí.

Fleiri myndir eru á facebooksíðu Menntaskóla Borgarfjarðar