MB formlega Heilsueflandi skóli

Ritstjórn Fréttir

Í dag verður MB formlega þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Verkefnið snýr að heildrænni stefnu í forvarna- og heilsueflingarmálum sem gerir framhaldsskólum kleift að marka skýra stefnu, skerpa á aðgerðaráætlunum og forvörnum. Markmiðið með verkefninu er að stuðla að velferð og góðri heilsu framhaldsskólanemenda.  Skólaárið 2011-2012 var undirbúningsár þar sem lögð var áhersla á næringu. Þetta skólaár verður aðal áherslan á hreyfingu auk næringar.

Verkefninu er stýrt af landlæknisembættinu og er verkefnisstjóri þess Héðinn Svarfdal Björnsson. Verkefnið byggist á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að aukinni vellíðan allra í skólasamfélaginu og auknum árangri nemenda og kennara í starfi. Að sögn Kolfinnu Jóhannesdóttur skólameistara MB var síðasta skólaár undirbúningsár verkefnisins. Þá var lögð áhersla á næringu  og nemendum og starfsfólki skólans meðal annars boðinn hafragrautur í fyrstu frímínútum á morgnana. „Framtakið mæltist afar vel fyrir og þáðu margir nemendur og starfsfólk hafragraut. Áfram verður boðið upp á hafragraut á skólaárinu sem nú er hafið,“ segir Kolfinna. Í vetur mun skólinn jafnframt leggja áherslu á hreyfingu og næringu áfram. „Varðandi hreyfingu þá eru uppi hugmyndir meðal nemenda um að hrinda af stað átaki sem yrði unnið í samstarfi við dansskólann og fleiri aðila. Íþróttasviðið hjá okkur er vinsælt og það styður við stefnu skólans. Matráður skólans er að prófa nýjungar í mötuneytinu sem hafa hlotið góðar viðtökur í upphafi skólaárs þar sem nemendum gefst kostur á velja milli heitra máltíða og þess að að kaupa litlar skyrdósir og eða grænmetisöskjur.”

Héðinn Svarfdal verkefnisstjóri afhenti skólanum að gjöf skilti og fána verkefnisins. Þá fengu allir nemendur og starfsmenn afhenda vatnsbrúsa merkta verkefninu.