MB í samstarfi við sænskan skóla

Ritstjórn Fréttir

baekurÁ næstunni er von á 23 sænskum nemendum ásamt kennurum og fylgdarliði í heimsókn í MB. Svíarnir koma frá alþjóðlegum menntaskóla í Kalmar (CIS – Calmar Internationella Skola) í sænsku Smálöndunum. Samstarf menntaskólans í Kalmar og MB hefur staðið frá árinu 2008 og er þetta í annað sinn sem nemendur þaðan koma í Borgarnes og MB hefur tvisvar sinnum sent hópa til Kalmar. Skólarnir skiptast á að sækja um styrki til Nordplus Junior til samstarfs á sviði náttúrufræði landanna. Ef styrkur fæst dugir hann yfirleitt til gagnkvæmra heimsókna og verkefnavinnu. Þóra Árnadóttir, náttúrufræðikennari, hefur unnið að undirbúningi heimsóknarinnar og að hennar sögn er dagskráin þéttskipuð. Farið verður í vettvangsferðir um Borgarfjörð og Suðurland og Hellisheiðarvirkjun verður heimsótt sérstaklega. Á milli ferðanna vinna nemendur að verkefnum sem tengjast því sem fyrir augu bar. Námsferð sænsku menntaskólanemanna stendur í viku, frá 21.4. – 28.4. Flestir gista þeir á heimilum nemenda í MB.