MB og Síminn í samstarf

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Allt nám fer fram í fjarnámi.

Nemendur nýta aðstöðu og tíma í sinni vinnu til að fylgjast með náminu

Ásthildur Magnúsdóttir kennari er tengiliður nemenda í þessu skemmtilega verkefni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Menntaskóli Borgarfjarðar og Síminn hafa sett af stað samvinnuverkefnið „Síminn skapar tækifæri fyrir sitt fólk“ . Markmið þessa verkefnis er að styðja við starfsfólks Símans til að afla sér frekari menntunar.

Starfsfólk Símans sem ekki hefur lokið formlegu námi (stúdentsprófi eða iðnnámi) geta nú skrá sig í fjarnám við MB og sinnt námi samhliða störfum sínum hjá Símanum. Samningur Símans og MB felur í sér að þessir nemendur fá aukna athygli umsjónaraðila innan skólans ásamt því að Síminn skuldbindur sig að veita sínu starfsfólki svigrúm svo námið sitji ekki á hakanum.

Við upphaf námsins er farið mjög vandlega yfir og metið fyrra nám og reynsla, til dæmis litið til raunfærnimats en með slíku mati geta nemendur unnið sér inn einingar sem gefnar eru út frá þeirri reynslu sem þeir hafa öðlast í störfum sínum. Allir nemendur hafa farið í gegnum raunfærnimat á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands.

Nemendum er úthlutað umsjónarkennara sem hefur það hlutverk að fylgjast með framvindu og styðja nemendur ásamt því að námsráðgjöf stendur þeim til boða. Nú þegar eru níu nemendur skráðir í nám við MB sem hluti af verkefninu.

Menntaskóli Borgarfjarðar og Síminn hafa það að leiðarljósi í þessu verkefni að veita starfsfólki Símans gott tækifæri til að bæta við sig þekkingu og auka enn frekar möguleika á meira námi.

Menntaskóli Borgarfjarðar lítur það mjög jákvæðum augum að koma til móts við fólk sem á einhverjum tímapunkti hefur ekki náð að klára nám . Það er mikilvægt hlutverk menntastofnana að finna leiðir sem henta sem flestum og ekki síður ef það er hægt að gera í samvinnu við atvinnulífið.

Síminn lítur á það sem hlutverk sitt að skapa tækifæri. Ekki aðeins fyrir viðskiptavini sína heldur einnig starfsfólk. Síminn er stoltur af virkri starfsþróun innan Símans enda mikið virði fólgið í því að starfsfólk vinni hjá Símanum yfir lengri tíma, við fjölbreytt störf og ólíkar áskoranir. Með auknu þekkingar- og menntunarstigi eflist starfsfólkið, því sjálfu og Símanum til góða.