Menntaþing 2013

RitstjórnFréttir

Í dag, föstudaginn 19. apríl,  verður haldið menntaþing í Hjálmakletti. Meginmarkmið menntaþingsins er að ræða hvernig efla megi samstarf skóla í Borgarbyggð og vekja athygli á því mikla og góða skólastarfi sem þar fer fram. Sveitarfélagið, sem telur rúmlega 3000 íbúa, hefur á sínum snærum fimm leikskóla, tvo grunnskóla, einn menntaskóla, tvo háskóla, dansskóla, tónlistarskóla og símenntunarmiðstöð.

Stjórnendur skólanna eiga nú frumkvæði að því að starfsmenn skólanna komi saman og ræði um skólamál, framtíðarsýn og samvinnu skólanna í héraði. Jafnframt verður foreldrafulltrúum frá hverjum skóla boðið að taka þátt í menntaþinginu.

Að auki verður opið hús í skólunum frá kl. 9.00-11.00 fyrir þá sem vilja kynna sér skólastarfið.

Kl. 15.00 verður opnað í Hjálmakletti fyrir starfsmenn skólanna, foreldrafulltrúa og aðra þá er áhuga hafa að sitja menntaþingið. Tónlistarskóli Borgarfjarðar sér um tónlist en formleg dagskrá hefst kl. 15.30 með ávarpi menntamálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Páll Brynjarsson sveitarstjóri fjallar um skólastarf í Borgarbyggð og að því loknu munu starfsmenn skólanna taka þátt í hópavinnu og umræðum um tækifæri til samstarfs. Dansskóli Evu Karenar býður upp á danssýningu, þátttakendur syngja „Menntaþingssönginn 2013“ og loks verða léttar veitingar í boði Borgarbyggðar. Áætlað er að dagskrá ljúki um kl. 18.00.

Undirbúningsnefnd menntaþingsins, sem skipuð er fulltrúum allra skólanna, vonast til að sem flestir sem tilheyra skólasamfélagi Borgarbyggðar taki þátt í þessum viðburði. Það er ekki oft sem starfsmenn og foreldrafulltrúar hafa tækifæri til að hittast og velta því fyrir sér hvernig skólarnir geti sem best unnið saman. 

zp8497586rq