Menntun fyrir störf framtíðar

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur löngum verið þekktur fyrir að vera sveigjanlegur og framsækinn skóli og heldur ótrauður áfram á þeirri braut. Í fyrra vor skipulagði skólinn ráðstefnu sem bar heitið “Menntun fyrir störf framtíðarinnar.” Efni hennar má ennþá nálgast hér: https://www.youtube.com/watch?v=nEgt5LtkHAI&list=PLZiTNsBc714s8U5qztrhZLV867FvoyedW

 

Ráðstefnan endurspeglaði á margan hátt það sem fullrúar atvinnulífs á Íslandi og OECD telja vera mikilvæga hæfni fyrir framtíðina og hvaða áherslur ættu að vera í menntun ungs fólks í dag.

 

Í ársbyrjun 2021 samþykkti Stjórn MB að skipa starfshóp til  að móta tillögur fyrir skólaþróun í Menntaskóla Borgarfjarðar.  Markmiðið er að efla sérstöðu  og efla ímynd skólans, koma til móts við nýjar þarfir í menntun ungs fólks, fjölga nemendum og laða að enn fjölbreyttari hóp nemenda auk þess að stuðla að jákvæðari búsetuskilyrðum í Borgarfirði.

 

Signý Óskarsdóttir hjá Creatrix er verkefnastjóri hópsins  en í honum eru einstaklingar úr atvinnulífinu og menntageiranum. Einnig er leitað til aðila úr háskólasamfélaginu og annarra sérfræðinga. Mikilvægast er þó að heyra hvað unga fólkið hefur að segja um menntun fyrir störf framtíðar. Hvernig nám vilja þau og hvaða áherslur ættu að vera í skólastarfi að þeirra mati? Mikil áhersla er því lögð á að eiga samtal við ungt fólk, bæði núverandi, tilvonandi og útskrifaða nemendur skólans.

 

Hópurinn hittist miðvikudaginn þriðja mars á sínum fyrsta fundi í MB, hópinn skipa Bjarki Þór Grönfeldt, doktorsnemi, fulltrúi útskrifaðra nemenda. Bjarni Þór Traustason, framhaldsskólakennari, fulltrúi starfsfólks MB. Helena Guttormsdóttir, lektor hjá LbhÍ, fulltrúi stjórnar MB. Inga Dóra Halldórsdóttir, framkv.stj. Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi, fulltrúi stjórnar MB. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA, fulltrúi atvinnulífsins. Kolfinna Jóhannesdóttir, sérfræðingur í framhaldsskólamálum. Ólöf Björk Sigurðardóttir, framhaldsskólakennari, fulltrúi starfsfólks MB. Þorgeir Frímann Óðinsson, Directive games og form. samtaka leikjaframleiðenda, fulltrúi atvinnulífsins. Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, fulltrúi atvinnulífsins.

Á myndinni má sjá hluta hópsins