Menntun fyrir störf framtíðar

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Líkt og komið hefur er starfandi innan Menntaskóla Borgarfjarðar starfshópur sem ætlað er að móta tillögur fyrir skólaþróun MB. Markmiðið er að efla sérstöðu og ímynd skólans, koma til móts við nýjar þarfir í menntun ungs fólks, fjölga nemendum og laða að enn fjölbreyttari hóp nemenda auk þess að stuðla að jákvæðari búsetuskilyrðum í Borgarfirði.

Margir hópar hafa lagt sitt að mörkum inn í hugmyndavinnu tengda þessu verkefni.  Nemendur MB tóku þátt í vinnustofu fyrr í þessum mánuði og nemendur í 9. og 10. bekk sex grunnskóla hafa tekið þátt í fókushópum eða alls 46 grunnskólanemar. Einnig tók ungmennaráð Vesturlands þátt í fókushópi nú á dögunum. Fulltrúar fjögurra háskóla taka þátt í hugmyndavinnunni með aðkomu sinni á fundi starfshóps verkefnisins.

Í dag horfði starfsfólk MB til framtíðar í vinnustofu sinni og rýndi í innihald náms, kennsluaðferðir og náms- og kennsluumhverfi. Vinnustofan var nýtt til að skoða í hvaða átt skólinn gæti þróast á næstu árum og var horft til staðbundinna hátta sem og áhrifavalda eins og fjórðu iðnbyltingarinnar, sjálfbærni og umhverfismála.

Það er góður gangi í þessari vinnu og gríðarlega verðmætt fyrir MB að fá fram sem flest sjónarhorn.