Möguleikhúsið - Völuspá

Möguleikhúsið flytur Völuspá í Hjálmakletti

Ritstjórn Fréttir

Möguleikhúsið - VöluspáFimmtudaginn 25. október verður nemendum MB boðið á leiksýningu í Hjálmakletti. Þá mun Möguleikhúsið flytja Völuspá eftir Þórarin Eldjárn og hefst sýningin klukkan 11. Leikverkið byggir á hinni fornu Völuspá, kvæði sem er lagt  í munn völvu sem allt veit og  flytur það að beiðni Óðins. Í kvæðinu kemur fram áhugaverð sýn inn í  hugmyndaheim heiðinnar goðafræði.

Upprifjun völvunnar á atburðum fortíðar verður Þórarni Eldjárn kveikjan að því að segja ýmsar sögur af Óðni og ásum, t.d. hvernig Óðinn gaf annað auga sitt fyrir drykk úr Mímisbrunni og hvernig hann fíflaði Gunnlöðu fyrir mjöð Suttungs. Í meðförum hans verður Mímir þunglamalegur þurs, Suttungur viðkvæmt skáld, Loki vandræðaunglingur og Baldur fyrirmyndardrengur, hrafnar Óðins vafasamir ráðgjafar og Óðinn sjálfur bæði virðulegur og hégómlegur í senn.

Frá því Völuspá var frumsýnd á Listahátíð árið 2000 hefur sýningin m.a. verið sýnd á hátíðum í Rússlandi, Svíþjóð, Kanada, Finnlandi, Færeyjum, Bandaríkjunum Þýskalandi og Frakklandi. Sýningar á Völuspá eru nú orðnar hátt í 200 talsins.

Leikstjóri sýningarinnar er Peter Holst, Guðni Franzson stýrir tónlistinni í verkinu og leikmynd og búninga hannaði Annette Werenskiold. Á meðfylgjandi mynd eru Pétur Eggerz sem leikur öll hlutverkin í Völuspá og tónlistarmaðurinn Birgir Bragason.

zp8497586rq