Móttaka nýnema

RitstjórnFréttir

Þann 2. – 3. september sl. fóru nemendur og kennarar MB í árlega óvissuferð með nýnemum. Að vanda var öllum nemendum skólans boðin þátttaka í ferðinni og voru þátttakendur um 90 talsins. Lagt var af stað um kl. 9 og var fyrsti viðkomustaður bærinn Hestur í Borgarfirði en þar er starfrækt kennslu- og rannsóknafjárhús Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemendur fengu fræðslu um hrúta, hvernig þeir væru þuklaðir og metnir. Til þess að gera fræðsluna áþreifanlegri fengu nemendur að þukla og meta tvo hrúta sem voru á staðnum. Eftir dvölina á Hesti var farið að Hvanneyri þar sem nemendur tóku þátt í ýmsum leikjum s.s. knattspyrnu, ruðningi og “sveitafittness”. Áfram var haldið og var næsti viðkomustaður Reykholt. Að Reykholti var farið í ratleik þar sem átti að leysa ýmsar þrautir sem hópunum gekk misvel að leysa. Að lokum var gist í Brautatungu í Lundarreykjadal, þar gafst nemendum tækifæri á að fara í sund meðan aðrir léku sér í boltaleikjum eða týndu ber. Um kvöldið var svo slegið upp grillveislu og runnu hamborgarar og pylsur létt ofan í svanga nemendur og starfsfólk. Seinna um kvöldið var kvöldvaka þar sem var sungið, veit verðlaun fyrir árangur dagsins o.fl. Eftir kvöldvökuna lagðist fólk í slökun enda orðið þreytt eftir fjörugan dag. Snemma morguninn eftir voru nýnemarnir vaktir til að taka þátt í morgunleikfimi áður en gengið var frá og haldið heim á leið. Ferðin var skipulögð af nemendafélagi skólans og var þeim og skólanum til sóma.