Náms og skemmtiferð til Dublin

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Dagana 24.- 28. apríl lagði 18 manna hópur starfsfólks MB, auk nokkurra maka, í námsferð til Dublin á Írlandi með það meginmarkmið að heimsækja skóla og stofnanir ásamt því að eiga góða daga saman. KVAN – travel skipulagði ferðina með okkur.
Flogið var út snemma á miðvikudagsmorgni og þann dag var farið í heimsókn í ráðuneyti menntamála í Dublin. Þar fengum við afar góða kynningu á uppbygginu menntakerfisins á Írlandi. Margt áhugavert sem þar kom fram.
Á fimmtudeginum fórum við snemma morguns á Trinity College svæðið en skólinn er þekktur og virtur, með aldagamla sögu. Þar fékk hópurinn skemmtilega leiðsögn um háskólasvæðið og að lokum dáðist hann að Book of Kells og einu frægasta bókasafni heims sem háskólinn geymir.
Seinnipart þessa dags var svo farið í heimsókn í Kylemore College í Dublin. Þar var afar vel tekið á móti okkur og áttum við bæði langt og gott spjall við starfsmenn sem og heimsóttum við nemendur og kennara í kennslustundir. Afar fróðlegt var að sjá það góða starf sem þar er unnið og ekki síst að verða vitni að samstarfi margra skólastiga ásamt fullorðinsfræðslu. Í lok dags var svo hópnum boðið á tónleika í skólanum en nemendur höfðu meðal annars æft lagið Bíum bíum bambaló sem er írskt þjóðlag við texta Jónasar Árnasonar og kom flutningur þess sérstaklega á óvart.
Stór þáttur ferðar sem þessarar er áherslan á hópefli og samveru starfsmannahópsins sem eflir starfsandann og nærir.
Snemma morguns á sunnudegi var svo flogið heim og lent í Keflavík um hádegisbil og voru það glaðir og endurnærðir ferðalangar sem komu aftur í sólina í Borgarfirði seinnipart sunnudags.