Námsmat í MB

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

 

NÁMSMATIÐ ER SAMOFIÐ ÖLLU SKÓLASTARFI OG MIKILVÆGUR HLUTI LEIÐARINNAR AÐ AUKINNI ÞEKKINGU OG SKILNINGI.

Námsmatið er fyrst og fremst leiðsagnarmat þar sem vinna nemenda, og að leiðbeina þeim um hvað betur megi fara, er í brennidepli. Leiðsagnarmat er til að fylgjast með og sjá stöðuna meðan á námi stendur. Megintilgangur leiðsagnarmats er að gera nemendur meðvitaða um það sem þeir læra, hvernig þeir læra og til hvers er ætlast af þeim. Leiðsagnarmat byggist því á góðri endurgjöf frá kennurum, sem nemendur geta nýtt sér til að verða meðvitaðir um eigin námsframvindu. Til þess að nemendur geti vitað til hvers er ætlast af þeim þarf að vera skýrt fyrir þeim hvaða markmiðum þeir stefna að og hvað þarf til að ná þeim.

VÖRÐUR

Hjá okkur í MB eru ekki formleg próf í lok anna heldur eru nemendur metnir jafnóðum allan námstímann. Þau fá endurgjöf þrisvar sinnum á önn á svokölluðum vörðum.

Á vörðum er notast við þriggja stiga skala; mjög gott – í lagi – ófullnægjandi, ásamt skriflegum ábendingum frá viðkomandi kennara. Í matinu er notast við flest þekkt mælitæki í skólastarfi, t.d. ígrundun kennarans, munnleg- og skrifleg próf, sjálfsmat og verkefni af ýmsum toga. Lokaeinkunn í hverjum áfanga er í formi tölu á bilinu 1–10 með vísan í námsmarkmið viðkomandi áfanga.