Nemendur á faraldsfæti

RitstjórnFréttir

Þessa viku stendur yfir heimsókn 12 nemenda og tveggja kennara Menntaskóla Borgarfjarðar til bæjarins Ermelo í Hollandi. Heimsóknin er liður í skólasamstarfsverkefni sem Menntaskóli Borgarfjarðar er aðili að ásamt skólum í Þýskalandi, Portúgal, Tyrklandi og Hollandi. Markmiðið með verkefninu er að auka skilning nemenda á fólksflutningum og menningarlegum áhrifum þeirra á samfélög. Verkefninu er ætlað að vera tæki til að hvetja til umburðarlyndis og betri samþættingar svæða sem búa við ólíkar menningarlegar aðstæður. Nemendur skiptast á heimsóknum, eignast vini af erlendum uppruna og kynnast siðum og venjum í öðrum löndum.

Verkefnið er styrkt af evrópskum menntunarsjóði sem heitir Comenius en sjóðurinn styrkir fjölþjóðleg samstarfsverkefni skóla í Evrópu. Ferðin núna er fyrsta ferð nemenda Menntaskóla Borgarfjarðar í verkefninu en þeir tóku á móti nemendum úr samstarfsskólunum síðastliðið vor. Nemendur vinna að fjölbreyttum verkefnum í ferðinni í tengslum við markmið samstarfsins ásamt því að sækja fjölskyldur nemenda í Ermelo heim og fara í fróðlegar og skemmtilegar skoðunarferðir.