Nemendur bjóða upp á asískar kræsingar

Ritstjórn Fréttir

IMG_2535Nemendur í áfanganum „saga fjarlægra þjóða“ tóku sig til í dag og sáu um hádegisverð í mötuneyti skólans.

Í áfanganum er fjallað um Ameríku, Asíu og Afríku frá örófi til nútímans. Markmið áfangans eru annars vegar að ná tökum á þeim vinnubrögðum sem gerðar eru kröfur um í fyrstu námskeiðum í háskóla og hins vegar að velta upp möguleikum á miðlun sögu og menningar.

Viðfangsefnin eru allt frá Inkum, Aztekum og Anazasa indjánum yfir í vandamál tengd offitu í Bandaríkjum nútímans, tæknibyltingunni í S-Kóreu, menningarbyltingu Maós og trúarbragða Vestur-Afríku svo eitthvað sé nefnt. Áfanginn er verkefnamiðaður og nemendur velja sér verkefni að eigin vali úr hverri af þessum heimsálfum.  Námið er lýðræðislegt á þann máta að nemendur og kennarar koma sér saman um viðfangsefnin og hugmyndin að eldamennskunni kom frá nemendum.
Á matseðlinum í dag voru Maqluba, sem er arabískur kjúklingaréttur, vorrúllur, djúpsteiktar rækjur með súrsætri sósu, hummus, Naan brauð, Gosht makani, sem er pakistanskur lambakjötsréttur, Tikka masala kjúklingaréttur og tælensk eggjakaka með nautahakki og grænmeti.
María Socorro Grönfeldt og Ívar Örn Reynisson kennari höfðu yfirumsjón með þessum viðburði en nemendur báru hita og þunga af eldamennskunni.
45 gestir snæddu í mötuneytinu í dag, nemendur, kennarar og stjórn skólans og voru allir hæstánægðir með matinn.
Nemendur fengu góða innsýn í hversu austurlensk matargerð krefst mikillar þolinmæði, natni, vinnusemi og yfirsetu. Þannig var þetta frábært  tækifæri til að lifa sig inn í þau lögmál sem matarmenning í Asíu byggir á.