Nóg að gerast í stjórnmálafræði

RitstjórnFréttir

IMG_1371

Um þessar mundir standa svokallaðar lýðræðisvikur yfir í félagsfræði 3A06. Í nýrri aðalnámskrá er mikil áhersla lögð á lýðræði og eru þessar vikur liður í því að uppfylla þær áherslur. Alls eru 6 vikur af önninni notaðar í þennan hluta og felst hann fyrst og fremst í því að nemendahópurinn hefur komist að samkomulagi um hvað hann vill læra í stjórnmálafræði. Fyrsta verkefnið var að stofna eigin stjórnmálaflokka. Fjórir flokkar voru stofnaðir, Captain, Hægri krossmenn, Velsæmisflokkurinn og Betri kjör. Flokkarnir settu allir fram sína eigin stefnuskrá í fjölmörgum liðum.

Síðastliðinn mánudag var síðan haldið í vettvangsferð á vit stjórnmálanna í höfuðborginni. Dagurinn hófst með heimsókn í Alþingishúsið þar sem gengið var um höll lýðræðisins á Íslandi. Að því loknu fór hópurinn í utanríkisráðuneytið þar sem starfsemi ráðuneytisins var kynnt. Svo vel vildi til að Framsóknarflokkurinn var með þingflokksfund í ráðuneytinu og komu þingmenn kjördæmisins, utanríkisráðherra þar á meðal, á fund hópsins. Einnig fékk hópurinn tækifæri til að hitta allan þingflokk Framsóknarflokksins og ræða stuttlega við hann.

 Eftir hádegismat var aftur haldið í Alþingishúsið þar sem þingflokkur Pírata tók á móti hópnum. Meðal annars var rætt um beint lýðræði og aðkomu almennings að ákvörðunum ríkisvaldsins. Pírötum var tíðrætt um Betra Ísland.is og hvöttu þeir nemendur til að láta til sín taka á þeim vettvangi.
Næst á dagskránni var vöfflukaffi hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Þar hitti hópurinn fyrir MB-inginn Bjarka Grönfeldt Gunnarsson ásamt Auði Lilju framkvæmdastjóra flokksins. Mikið var spjallað þar um réttlæti, frið og femínisma svo eitthvað sé nefnt.
Að lokum hélt hópurinn í Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins. Þar tók formaður SUS, Magnús Júlíusson á móti hópnum og Brynjar Níelsson ræddi við hópinn. Þar var m.a. rætt um heilbrigðisþjónustu, kirkjuna, veiðileyfagjaldið og skattheimtu.
Flestir sváfu vært á heimleiðinni eftir að hafa innbyrgt mikið magn upplýsinga sem vinna þarf úr í framhaldinu.  Kennari í félagsfræði 3A06 er Ívar Örn Reynisson.
zp8497586rq