Nýnemar mættu í hús í skólabyrjun, fengu hressingu, hittu umsjónarkennara, fengu stundaskrá og komu sér inn í tæknilega þætti eins og aðgang að kerfum og kennslukerfi. Það var frábært að sjá húsið lifna við og nemendur augljóslega spenntir fyrir þeim áskorunum sem fylgja því að hefja nám í framhaldsskóla.
Fyrstu dagarnir munu fara í að kynnast þessu nýja umhverfi, læra á kennslukerfið og að setja sig í stellingar fyrir önnina. Við bjóðum nemendur velkomna til starfa og óskum þeim velfarnaðar í námi og daglegu lífi.
Aðsókn að skólanum er með miklum ágætum en í dag eru skráðir 160 nemendur í nám við skólann sem er með albesta móti, öll pláss á Nemendagörðum MB eru fullsetin og komast færri að en vilja.