Styrkþegar í HR

Nýstúdent frá MB hlýtur styrk frá Háskólanum í Reykjavík

Ritstjórn Fréttir

Styrkþegar - Axel Máni fyrir miðju í fremstu röð

Háskólinn í Reykjavík veitti nú nýverið  styrki til afburðanemenda í skólanum.

Á meðal þeirra sem hlutu nýnemastyrk í grunnnámi er Axel Máni Gíslason en hann útskrifaðist af náttúrufræðibraut Menntaskóla Borgarfjarðar í vor. Axel Máni leggur stund á  tölvunarfræði við HR.

56 nemendur hlutu styrk af forsetalista skólans, en það eru þeir nemendur sem náð hafa bestum árangri í hverri deild (viðskiptadeild, lagadeild, tölvunarfræðideild og tækni- og verkfræðideild). Þá hlutu 29 nemendur nýnemastyrk í grunnnámi og 2 nemendur í frumgreinanámi fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur. Allir þessir nemendur fá skólagjöld einnar annar niðurfelld.

Nokkrir nemendur fengu viðurkenningu úr Frumkvöðlasjóði Guðfinnu S. Bjarnadóttur, en þeim sjóði er ætlað að verðlauna þá nemendur Háskólans í Reykjavík sem leggja fram bestu viðskiptaáætlun í verkefnum innan skólans á ári hverju.

Loks veitti bókaútgáfan Codex hvatningarverðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn á fyrsta ári í lögfræði.