Ráðning í skapandi rými

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Á vordögum auglýsti MB lausa til umsóknar stöðu umsjónaraðila Kviku. Kvikan er náms- og kennslurými fyrir fjölbreytta og skapandi vinnu í öllum áföngum skólans. Nemendur og starfsfólk geta nýtt sér aðgang að tækjum og hugbúnaði sem gagnast í verklegri kennslu í öllum greinum ásamt þjálfun í stafrænni hönnun og miðlun. Kvikan mun einnig vera opin almenningi og öðrum skólastigum eins og færi gefast.

Nú hefur verið ráðið í þessa stöðu en alls sóttu átta aðilar um . Gengið hefur verið til samninga við  Valdísi Sigurvinsdóttur kennara frá Akranesi.

Valdís hefur starfað um árabil við Grundaskóla á Akranesi og síðan 2018 starfað sem list- og verkgreinakennari í smiðju. Þar tók hún að sér að breyta smíðastofu í tækni- og sköpunarrými þar sem áhersla var lögð á ”Fablabvænt” umhverfi.

Valdís er menntaður kennari með myndlist sem kjörsvið og síðustu ár sótt sér fjölbreytta þekkingu með því að sækja ýmiskonar aukanámskeið, hvort heldur er í grafískri hönnun, fablab áfanga, tæknismiðju í HÍ og áfram mætti lengi telja.

Við í MB bjóðum Valdísi innilega vlkomna til starfa.