Ræðukeppni

Ritstjórn Fréttir

Ræðukeppni félags enskukennara (FEKI) fyrir framhaldsskólanema var haldin sl. laugardag í Háskólanum í Reykjavík. Þessi keppni er fyrir þátttakendur á aldrinum 16-20 ára og var þema keppninnar í ár ,,Lessons for the future“.

Þetta er í annað sinn sem keppnin er haldin hér á landi, en sigurvegari keppninnar fer fyrir hönd Íslands til Lundúna og tekur þar þátt í alþjóðlegri ræðukeppni sem fer fram dagana 23-27 maí 2011. Þema keppninnar er ,,Words are not enough“ og kemur sigurvegarinn til með að flytja 6 mínútna ræðu með eigin fyrirsögn.

Keppendur í ár voru alls 13 nemendur frá 5 framhaldsskólum, MA, Versló, FÁ, MH og MB.

Tveir nemendur, Bárður Jökull Bjarkarson og Stefnir Ægir Stefánsson, voru fulltrúar Menntaskóla Borgarfjarðar og stóðu þeir sig með ágætum. Þeir fengu að launum fyrirtaks orðabók með geisladiski frá MacMillan bókaútgáfunni og síðan þátttökuskjal. Tvær stúlkur deildu með sér sigrinum, Sigríður M. Egilsdóttir frá Verslunarskólanum og Hildur Hjörvar frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Þeir Bárður og Stefnir eru á 1. ári við MB og eru báðir búsettir á Hvanneyri.

Stefnt er að því að halda forkeppni hér við MB í upphafi næsta árs og færi sigurvegari keppninnar sem fulltrúi MB í ræðukeppni FEKI að ári.