Menntaskóli Borgarfjarðar hefur gert samning við farfuglaheimilið að Borgarbraut 11-13 um leigu á herbergjum handa nemendum skólans. Um er að ræða leigu á allt að 10 herbergjum. Samkvæmt samningnum getur fjöldi herbergja sem skólinn leigir verið breytilegur og fer það eftir aðsókn nemenda hversu mörg herbergi skólinn greiðir fyrir. Innifalið í samningnum er eftirlit og umsjón leigusala með því að nemendur fylgi reglum skólans um umgengni.
Nú þegar hafa fjórir nemendur leigt herbergi á Borgarbrautinni. Nemendur eiga rétt á húsaleigubótum sem geta numið allt að helmingi leigunnar og nemendur sem eiga lögheimili í meira en 30 km fjarlægð frá skóla eiga auk þess rétt á dvalarstyrk frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) sem á vorönn nemur 121.000 kr. Það er því auðvelt fyrir þá sem stunda nám fjarri heimahögum að reikna út hagkvæmni þess að búa á nemendagörðunum.
Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari kveðst mjög ánægð með samninginn sem tryggir nemendum aðgengi að húsnæði á góðu verði. Hún bendir á að búseta á nemendagörðum bæti aðgengi nemenda að félagslífi og íþróttastarfi og sé góður kostur fyrir þá sem þurfa um langan veg að fara.
Á myndinni má sjá Kolfinnu Jóhannesdóttur, skólameistara og Gylfa Árnason, eiganda farfuglaheimilisins undirrita leigusamninginn.