Samstarf MB og NFU í Svedala

Lilja Ólafsdóttir Fréttir

Þessa viku eru 15 sænskir nemendur og fjórir kennarar frá NFU menntaskólanum í Svedala í náms- og kynnisferð á Íslandi. NFU á í samstarfi við MB og er þetta í fjórða sinn sem nemendur hans koma hingað.

Svíarnir hafa farið, ásamt nemendum MB, í tvær vettvangsferðir. Í þeirri fyrri voru uppsveitir Borgarfjarðar skoðaðar. Í Reykholti fræddust nemendur um sögu staðarins og skoðuðu sýningu um ævi og sögu Snorra Sturlusonar og gengu að Snorralaug og Skriflu. Í ferðinni var líka staldrað við Hraunfossa og Barnafoss, Deildartunguhver og Grábrók og rætt um jarðfræði og náttúrufyrirbrigði. Í seinni ferðinni fór hópurinn Gullna hringinn þ.e. skoðuðu Þingvelli, Geysi og Gullfoss. Á leiðinni var komið við á bænum Eyvindarstöðum á Laugarvatni, kíkt á nýfædd lömbin og fræðst um heimarafstöðina. 

Í dag, ásamt verkefnavinnu í MB, verður Borg á Mýrum heimsótt og farið á hestbak. Ferðinni lýkur á morgun en þá verður haldið til Reykjavíkur og höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar í Reykjavík heimsóttar einnig Hellisheiðavirkjun og Alþingi.