Samstarf við menntaskólann í Svedala í Svíþjóð

RitstjórnFréttir

Tveir kennarar frá Nils Fredriksson menntaskólanum, NFU,  í Svedala í Svíþjóð hafa verið í heimsókn í MB undanfarna daga og kynnt sér skólastarfið. Þær Kristin Adegran og Jette Rockum Boeskov eru raungreinakennarar auk þess sem Jette kennir dönsku sem er valgrein í skólanum. Heimsókn þeirra markar upphafið að samstarfi Menntaskóla Borgarfjarðar og NFU en fyrirhugað er að hópur sænskra nemenda heimsæki MB í apríl næstkomandi og að hópur nemenda héðan fari í skólaheimsókn til Svedala haustið 2013. Verkefnið er styrkt af Nordplus áætluninni og verður einkum lögð áhersla á jarðfræði í Íslandsheimsókninni en stjörnufræði í heimsókninni til Svíþjóðar. NFU nýtur þess að vera í nágrenni Lundar og Kaupmannahafnar og hefur átt gott samstarf við  vísindamenn á sviði stjörnurannsókna  í báðum borgum.

MB og NFU eiga það meðal annars sameiginlegt að vera fámennir skólar, með um og innan við 200 nemendur í dagskóla. Í báðum skólum er lögð áhersla á nemendamiðaða kennslu og persónulega þjónustu við hvern og einn.

Kristin og Jette lýstu mikilli ánægju með dvölina í Menntaskóla Borgarfjarðar og sögðust hlakka til frekara samstarfs og nemendaheimsókna. Á myndinni eru þær ásamt Þóru Árnadóttur, raungreinakennara við MB.

zp8497586rq