Skemmtileg heimsókn

RitstjórnFréttir

Menntaskólinn í Borgarfirði fékk skemmtilega heimsókn í síðustu viku þegar Lara Roje frá Króatíu, Yuriko Yokoyama frá Japan og Ogwang Denis Mobjoe frá Úganda komu og kynntu menningu sína fyrir nemendum í félagsfræði.
Nemendur fengu umfjöllun um stríðið í Króatíu og áhrif þess á samfélagið, rætt var um matarmenningu og uppfinningar ásamt mörgu öðru. Nemendur fræddust líka um ólíka þjóðflokka í Úganda sem hafa hver sín sérkenni og mismunandi menningarlegar hefðir. Einnig fengu þeir kennslu í origami og bjuggu til skraut á ljósaseríu eftir japönskum hefðum.
Gestirnir lífguðu heilmikið upp á kennsluna og höfðu orð á því hvað nemendurnir voru gestristnir og vinalegir, en nemendur létu sitt ekki eftir liggja og skipulögðu stutta kynnisferð um Borgarnes og settu saman myndasýningu með valinni íslenskri tónlist í bakgrunni.