Um leið og við í MB óskum öllum gleðilegs árs og friðar viljum við upplýsa um stöðu á skólaþróunarverkefninu okkar. Margt af því sem hingað til hafa verið tillögur er að verða að veruleika og stikla ég á stóru hér að neðan hvað það varðar.
Þar ber fyrst að nefna að Lífsnámið sem fer af stað núna á vorönn og verður heil vika helguð umfjöllun um kynlíf, kynhneigðir og kynheilbrigði með áherslu á mikilvægi gagnkvæmrar virðingar í samskiptum fólks. Jafnframt verður fjallað um kynferðislegt, andlegt og fjárhagslegt ofbeldi. Áhersla verður lögð á að efla sjálfsvirðingu nemenda og mikilvægi ábyrgrar ákvarðanatöku. Nemendur fá tækifæri til að vinna með sérfræðingum á þessu sviði auk þess sem kennarar MB búa til samþætt verkefni sem nemendur vinna með alla lífsnámsvikuna og kynna afrakstur sinn á föstudegi.
Skipulag vikunnar og innihald áfangans sem ber heitið Alls-kyns var unnið í samstarfi við nemendur.
Aðrir áfangar í lífsnáminu verða kenndir í framhaldi einn á hverri önn og þar má finna áherslur eins og geðheilbrigði og heilsusamlegt líferni, sjálfbærni, allt um fjármál og mannréttindi, lýðræði og jafnrétti.
Settur hefur verið saman rýnihópur með fulltrúum háskólanna vegna þróunar STEAM áfanga fyrir MB.
Það er mikil ánægja að fá tækifæri til að vinna með háskólunum og um leið víkka sjóndeildarhringinn og fá sérfræðiþekkingu inn í þróun þriggja áfangalýsinganna.
Hér er um einstaka tilraun að ræða sem enginn framhaldsskóli, að því við vitum, hefur framkvæmt áður.
Við höfum skrifað grunn að áfangalýsingunum og gerum ráð fyrir þverfaglegri kennslu vísinda, tækni, verkfræði, listsköpunar/hönnunar og hagnýtrar stærðfræði. Við erum líka að skoða aðbúnað, náms- og kennsluumhverfi með tilliti til þessarar nýju áherslu í námi skólans. Fyrsti STEAM áfanginn verður kenndur 1. árs nemum á vorönn 2023.
Stafræn hönnun og miðlun fær aukið rými í skólastarfinu á þessari önn og hefur skólinn fest kaup á búnaði fyrir hljóð og myndvinnslu í stúdíói sem sett verður upp á næstu vikum. Til að geta sem best nýtt tækjakostinn og fléttað stafrænni miðlun inn í nám og kennslu þá er fram undan er lærdómstími bæði hjá kennurum og nemendum. Næsta haust munu áfanga- og brautalýsingar meðal annars endurspegla þessa áherslu skólans.
Framtíðarverið er í mótun og fær rými innan skólans á næstu vikum. Nú þegar er búið að festa kaup á búnaði til hljóð og myndbands upptölu og vinnslu, þrívíddarprenturum, laser – skurðvél, pressum og fleiru. Nemendur og kennarar fá tækifæri til að prufa sig áfram með græjurnar undir handleiðslu núna á vorönn en á haustönn gerum við ráð fyrir því að Framtíðarverið verði hluti af skólastarfinu eins og annar búnaður til náms og kennslu.