Menntaskóli Borgarfjarðar var settur mánudaginn 21. ágúst og hófst samkvæmt stundatöflu þriðjudaginn 22. ágúst. Skólastarfið fer vel af stað og ekki annað að sjá en að kennarar og nemendur séu ánægðir. Nemendur skiptast á hinar fjölmörgu brautir skólans en langflestir eru á Félagsfræðabraut en svo eru Náttúrufræðibraut og Opin braut vinsælastar. Opin braut býður uppá mikið val af hálfu nemandans og slíkar brautir eru alltaf að verða meira vinsælar á landsvísu. Sex nemendur eru skráðir á Náttúrufræðibraut – búfræðisvið sem er samstarf milli MB og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þetta haustið eru þrjátíu og fjórir nýnemar að hefja nám, sex eldri nemendur hafa snúið aftur til okkar í nám og fjórir duglegir grunnskólanemendur eru í ensku og dönsku hjá okkur. Við skólann verða fjórtán fjarnemar og sjö einstaklingar á starfsbraut. En fyrir utan þær brautir sem hafa verið nefndar bjóðum við uppá Framhaldsskólabraut, Heilbrigðisritarabraut í samstarfið við Fjölbraut í Ármúla og Fjarmenntaskólann ásamt Íþróttafræðibraut sem hefur verið vinsæl síðustu ár. Starfsfólk MB hlakkar mikið til vetursins og samstarfsins við nemendur og foreldra skólans.