Smásöluverslun á Vesturlandi

Ritstjórn Fréttir

Í vor stóð SSV (Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi) að könnun á kauphegðun viðskiptavina smásöluverslunar í Borgarnesi, Búðardal, Stykkishólmi, Grundarfirði og Ólafsvík. Verkefnið var unnið í samstarfi við nemendur og starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar stóðu vaktina við verslanirnar Bónus og Nettó í Borgarnesi og tóku viðskiptavini á tal. Unnið var svo úr niðurstöðunum í tölfræðitíma undir stjórn Bjarna Þórs Traustasonar, kennara og niðurstöður kynntar fyrir Vífli Karlssyni, hagfræðingi hjá SSV.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar versluðu viðskiptavinir í Borgarnesi fyrir 5.503 kr. að meðaltali í hverri verslunarferð í verslunum Bónus og Nettó en í fyrra versluðu þeir fyrir 5.407 kr. Marktækur munur var á milli verslana. 29% viðskiptavina Bónuss búa utan Borgarbyggðar en 23% viðskiptavina Nettó. Hægt er að sjá skýrsluna í heild sinni hér.