Lionsklúbburinn Agla styrkir starfsbrautina

Starfsbrautin fær gjöf frá Lionsklúbbnum Öglu

Ritstjórn Fréttir

Lionsklúbburinn Agla styrkir starfsbrautinaStarfsbraut Menntaskóla Borgarfjarðar leitaði í nóvember síðastliðnum til Lionsklúbbsins Öglu um styrk til kaupa á Ipad spjaldtölvu og kennsluforritinu Clicker 6. Skemmst er frá því að segja að klúbburinn brást vel við erindinu og hefur nú fært starfsbrautinni þessa höfðinglegu gjöf. 

Ipad spjaldtölvan hentar vel við kennslu nemenda með sérþarfir og mikið er til af kennsluforritum, fyrir slíka tölvu, sem henta nemendum starfsbrautarinnar vel.

Clicker 6 er verðlaunaforrit í læsi sem gerir nemendum á mismunandi getustigum kleift að þróa og þroska hæfni sína í læsi og ritun með því að vinna í þverfaglegum verkefnum með texta, myndum og talendurgjöf. Með Clicker er hægt að búa til og aðlaga námsefni að þörfum nemenda með ýmsar sérþarfir til að þeir nái betri tökum á ritun og læsi.

Kostir Clicker 6 eru í fyrsta lagi að sjálfstæði nemenda eykst og í öðru lagi minnkar undirbúningstími kennara, sem er mikill kostur þar sem umtalsverður tími kennara á starfsbrautinni fer í að búa til og aðlaga námsefni fyrir nemendur. Clikcer veitir aðgang að LearningGrids sem er verkefnabanki með hundruðum ókeypis verkefna. Einnig fylgir sniðmát fyrir lestur, ritun, pörun, orðamerkingar, tal- og hlustunaræfingar sem og ritstjórnartæki sem auðveldar að yfirfara verkefni.

Nemendur starfsbrautar Menntaskóla Borgarfjarðar eru nú sjö  talsins og starfsmenn eru þrír.  Aðalbjörg Þórólfsdóttir þroskaþjálfi er umsjónarmaður starfsbrautar, Guðný Sigríður Gunnarsdóttir sérkennari og Álfheiður Sverrisdóttir stuðningsfulltrúi. Að sögn Aðalbjargar munu þessi nýju tæki hafa góð áhrif á nám og kennsluhætti á starfsbrautinni og þakkar hún, fyrir hönd starfsbrautarinnar, Ögluklúbbnum fyrir góð viðbrögð og rausnarskap.

Á myndinni tekur Aðalbjörg Þórólfsdóttir við gjöfinni úr hendi Ingu Margrétar Skúladóttur. Ásamt þeim á myndinni eru Guðný Sigríður Gunnarsdóttir sérkennari og Steinunn Baldursdóttir og Elfa Hauksdóttir, félagar í Lionsklúbbnum Öglu.