Stúdent og garðyrkja

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Um nokkurt skeið hefur Menntaskóli Borgarfjarðar boðið upp á sérstaka námsbraut, Náttúrufræðibraut með búfræðisviði. Námið fer þannig fram að nemendur taka tvö fyrstu árin (4 annir) í Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem megináherslan er á kjarnagreinar til stúdentsprófs og valdar greinar á sviði raungreina. Seinni tvö árin hafa nemendur svo tekið  við búfræðibraut Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Nemendur brautskrást með stúdentspróf frá Menntaskóla Borgarfjarðar og búfræðipróf frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Nú hefur enn verið bætt við þetta samstarf og nemendur eiga þess kost að útskrifast með sama hætti sem stúdent og garðyrkjufræðingur frá LBHI.

Aukinn áhugi hefur verið á þessari námsleið hjá MB og því er þessi viðbót mjög spennandi kostur fyrir nemendur skólans.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Braga Þór Svavarsson skólameistara MB og Ragnheiði Þórarinsdóttur rektor LBHI handsala samkomulagið.