Styrkur úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Hér má sjá Lilju S. Ólafsdóttur aðstoðarskólameistara, Helenu Guttormsdóttur stjórnarmann og Ingu Dóru Halldórsdóttur stjórnarformann MB glaðbeittar á úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands Guttormsdóttur

Menntaskóli Borgarfjarðar fékk úthlutað veglegum styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands á dögunum.

Tilgangur Uppbyggingarsjóðs Vesturlands er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Vesturlandi.  Menntaskóli Borgarfjarðar sóttist eftir styrk til að  stofna og reka fjölnota skapandi rými sem ber vinnuheitið Kvikan.

Kvikan á að styðja við nýsköpun og þróun frumgerða á hugmyndum með því að bjóða aðgang að verkfærum eins og þrívíddarprenturum, laserskerum, vinylskerum, pressum og saumavélum ásamt rými til listsköpunar. Í Kvikunni verður einnig að finna mynd- og hljóðver þar sem hægt að er að taka upp, vinna myndönd og hljóð og ganga frá stafrænu efni á faglegan hátt.

Kvikan á að vera staður þar sem hugmyndir geta orðið að veruleika. Sérstök áhersla er á að Kvikan sé aðgengileg krökkum og ungu fólki á öllum skólastigum í sveitarfélaginu og víðar á Vesturlandi. Almenningur mun einnig hafa aðgang að rýminu og fá aðstoð við hugmyndavinnu og tæknilega úrvinnslu þeirra.

Með því að veita ungu fólki aðgengi að aðstöðu, fræðslu og þjálfun er verið að leggja grunninn að nýskapandi hugsun og færni á svæðinu bæði fyrir atvinnulíf og samfélagið í heild.  Sú nýsköpun sem nú á sér stað í MB með innleiðingu STEAM náms og kennslu á framhaldsskólastigi er einnig ætlað styðja við nýskapandi samfélag í Borgarbyggð og tryggja nýtingu Kvikunnar í námi og kennslu. Allir háskólar landsins hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að taka þátt í samstarfsvettvangi um innleiðingu STEAM náms og kennslu á framhaldsskólastigi.

Kvikan sem verkefni er því samofin mjög stórum samstarfsvettvangi um nýsköpun í skólastarfi á Íslandi. Í því felst hluti af því nýnæmi sem verkefnið býr yfir. Það er einnig sú tenging sem fellur að nýsköpunarstefnu 2023 þar sem sagt er að „Starfsemi „uppfinningasmiðja“(fab-labs) [verði]styrkt og efld sem víðast um land þar sem til staðar eru tæki, tól og þekking sem ýtir undir sköpun og verklega færni. Lögð verði áhersla á að nemendur í grunn- og framhaldsskólum hafi aðgang að slíkum smiðjum og aðgangur að þeim verði hluti af skólastarfi.“ (Stjórnarráð Íslands, e.d., bls.13).

 

Við í MB erum afar stolt af þeirri viðurkenningu sem felst í þessum styrk og frábær stuðningur til að gera veg Kviku sem mestan í Borgarbyggð