Þjónustu- og samskiptanámskeið

RitstjórnFréttir

20140429_170300Þjónustu- og samskiptanámskeið er nýr 20 kennslustunda áfangi við Menntaskóla Borgarfjarðar í samvinnu við verkefnið „Hækkun menntunarstigs í Norðvesturkjördæmi“. Áhersla er lögð á tengingu milli skóla og atvinnulífs og gefur áfanginn eina einingu til stúdentsprófs.
Námskeiðið er sniðið fyrir fólk á aldrinum 15 til 25 ára sem vinnur eða hefur hug á að vinna við verslunar- og þjónustustörf. Markmið námskeiðsins er að gera nemendur meðvitaðri um mikilvægi góðrar þjónustu og þjálfa þá í samskiptum við mismunandi aðstæður. Námskeiðið hófst 31. mars sl. og lýkur 6. maí nk. Hæfniviðmið námskeiðsins eru m.a. nemendur öðlist almenna þekkingu og skilning á réttindum og skyldum á vinnumarkaði. Ennfremur að nemendur geri sér grein fyrir mikilvægi góðra samskipta og þjónustuvitund. Þá er farið yfir hvernig bregðast á við erfiðum aðstæðum í þjónustustarfi. Að lokum verður Markaðstofa Vesturlands heimsótt þar sem er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér þekkingu á áhugaverðum stöðum og afþreyingu í nærumhverfi til að geta betur mætt þörfum ferðamanna. Kennari er Helga Karlsdóttir og gestakennari er Brynjar Þór Þorsteinsson, markaðstjóri Háskólans á Bifröst.