Þróunarsjóður námsgagna hefur styrkt MB

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Þróunarsjóður námsgagna hefur styrkt MB til þróunar námsefnis fyrir STEAM nám og kennslu.

Stóru málin í heiminum eins og fjórða iðnbyltingin, umhverfismálin og heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun, ásamt lýðfræðilegum áskorunum kalla á aukna nýsköpun á öllum sviðum mannlífs og samfélags. Stefnur íslenskra stjórnvalda í menntamálum og nýsköpun til ársins 2030 endurspegla mikilvægi þess að ungt fólk búi yfir hæfni og eiginleikum til að geta tekið þátt í að móta nýjar lausnir í góðri samvinnu við aðra og þvert á greinar til þess að mæta þessum áskorunum.

Skólaþróunarverkefni Menntaskóla Borgarfjarðar hefur þetta að leiðarljósi og að verkefninu koma fjölmargir hagaðilar og sérfræðingar. Nemendur og starfsfólk MB eiga stóran hluta þeirra hugmynda sem ákveðið var að hrinda í framkvæmd og gengur samvinnan innan skólans vel. Skólaárið 2022–2023 raungerast mestu breytingarnar og hefur skólinn sett saman samstarfsvettvang með háskólastiginu sem hugsaður er sem farvegur fyrir sameiginlegan lærdóm í gegnum rannsóknir og faglegt samtal sem fleiri skólar og skólastig geta notið góðs af í náinni framtíð. Allir háskólarnir á landinu hafa staðfest þátttöku sína í samstarfsvettvangnum sem mun verða virkur frá og með hausti 2022.

Meðal nýjunga í skólastarfi MB er þróun og innleiðing STEAM náms og kennslu en skammstöfunin er á ensku og stendur fyrir Science, Technology, Engineering, Art og Mathematics. Þróunarsjóður námsgagna styrkti skólann um tvær miljónir til þróunar námsefnis fyrir STEAM nám og kennslu. Styrkurinn verður nýttur til að þróa námsefni og námsmat fyrir nám og kennslu í STEAM á framhaldsskólastigi. Nú þegar hefur verið settur saman hópur sérfræðinga og kennara MB sem þróa námsefnið.

Í STEAM námi er lögð er áhersla á grunnþekkingu greinanna og aðferðafræði þeirra. Um er að ræða samþættingu tækni, vísinda, stærðfræði, verkfræði og lista. Nemendur munu kynnast vísindalegri- skapandi- og gagnrýnni hugsun ásamt því að þjálfast í tæknilæsi og tæknifærni í gegnum verkefni. Vísindalegar aðferðir verða kynntar og nemendur fá tækifæri til að framkvæma tilraunir og skilja samhengi skapandi hugsunar og vísindastarfs. Nemendur kynnast aðferðum listsköpunar og notkun á ólíkum efnivið í listsköpun. Fjallað verður um tengingu lista, vísinda og tækni og hvernig stærðfræðin getur birst í listsköpun og hvernig afurðir verkfræðinnar geta endurspeglað listræna hugsun. Nemendur eiga að fá þjálfun í hugmyndavinnu og hvernig þeir geta sett fram hugmyndir og kynnt þær. Nemendur fá innsýn inn í heim fagfólks í tækni, vísindum, stærðfæði, verkfræði og listum með tengingu við atvinnulíf, samfélag og umhverfi.

Kennsluhættir verða í anda nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar en einnig er litið til annarra kennslufræðilegra módela og aðferða. Hér er um spennandi nýsköpun í skólastarfi að ræða sem vert er að fylgjast með á næstu misserum.