Útskrift 2022

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Föstudaginn 27. maí voru 36 nemendur brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar. Þórunn Sara Arnarsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema, Þórunn minnti samnemendur sína á að dagurinn væri stór áfangi og einn áfangi af mörgum. Í hönd færi nýtt tímabil í þeirra lífi með öllu því sem það hefur upp á að bjóða. Það tímabil bjóði án efa upp á mistök á einhverjum stigum, en nauðsynlegt

væri að muna að mistökin eru til að læra af og þau gera okkur sterkari.  Að venju var utanaðkomandi aðila boðið að vera með gestaávarp við brautskráningu en að þessu sinni var það Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra sem að hvatti nemendur til að fylgja hjartanu og taka óhrædd móti næstu áskorunum. Í fyrsta sinn og vonandi til framtíðar var ávarp 10 ára stúdenta. Sólveig Heiða Úlfsdóttir flutti ávarpið fyrir þeirra hönd.

Tónlistaratriði við brautskráningu voru í höndum þriggja fyrrverandi og núverandi nemenda við skólann eða þeirra Steinþórs Loga Arnarssonar og systranna Sigurdísar Kötlu Jónsdóttur og Alexöndru Rutar Jónsdóttur.

Að þessu sinni voru útskrifaðir 4 nemendur af Náttúrufræðibraut, 3 nemendur af Náttúrufræðibraut – búfræðisviði, 4 nemendur af Íþróttafræðibraut – náttúrufræðisviði, 7 nemendur af Íþróttafræðibraut – félagsfræðasviði, 15 nemendur af Opinni braut 2 nemendur með viðbótarnám til stúdentsprófs og 1 nemandi af starfsbraut.

Sá einstaki atburður áttir sér stað að með bestan námsárangur á stúdentsprófi voru tvíburasysturnar, Þóra Kristín og Ásrún Adda Stefánsdætur en þær voru báðar með einkunnina 9,32 og fengu fyrir það viðurkenningu frá Arion banka fyrir bestan námsárangur á stúdentsprófi.

Bragi Þór Svavarsson skólameistari ávarpaði útskriftarnema í lok athafnar þar sem hann óskaði þeim gæfu og gengis og hvatti nemendur til áframhaldandi góðra verka hvort heldur er í leik eða starfi. Bragi nefndi mikilvægi þess að ungt fólk tæki þátt í samfélaginu og létu til sína taka hvar sem þau gætu.

Verðlaun og viðurkenningar

Eftirtaldir útskriftarnemar fengu verðlaun og viðurkenningar við brautskráningu

Ásrún Adda Stefánsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur í dönsku frá Danska Sendiráðinu ásamt því að fá verðlaun fyrir góðan námsárangur íslensku  sem eru gefin af Kvenfélagi Borgarnes. Arion banki veitti Ásrúnu verðlaun fyrir besta samanlagða árangur á stúdentsprófi.

Bjartur Daði Einarsson fékk verðlaun fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af Borgarbyggð.

Bryndís Hafliðadóttir fékk verðlaun frá Menntaskóla Borgarfjarðar sem byggja á einkunnarorðum skólans Sjálfstæði – færni – framfarir.

Daníel Fannar Einarsson fékk verðlaun fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af Borgarbyggð.

Davíð Freyr Bjarnason fékk hvatningarverðlaun sem Límtré Vírnet gefur og eru veitt dreng sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi

Elísabet Kristjánsdóttir fékk hvatningarverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar, sem eru veitt stúlku sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi

Haukur Ari Jónasson fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur stærðfræði  sem eru gefin af Kvenfélagi Borgarnes.

Þóra Kristín Stefánsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur í dönsku frá Danska Sendiráðinu ásamt því að fá verðlaun fyrir góðan námsárangur íslensku sem eru gefin af Kvenfélagi Borgarnes. Þóra fékk Menntaverðlaun Háskóla Íslands, sem eru veitt einstaklingi sem hefur sýnt góðan árangur á stúdentsprófi, auk þess að hafa sýnt þrautseigju. Að lokum veitti Arion banki Þóru verðlaun fyrir besta samanlagða árangur á stúdentsprófi.

Þórunn Sara Arnarsdóttir fékk verðlaun fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af  Borgarbyggð. Menntaskóli Borgarfjarðar veitti Þórunni Söru viðurkenningu fyrir vandaðasta lokaverkefnið 2022. Þórunn fékk verðlaun fyrir góðan árangur í náttúruvísindum sem Íslenska Gámafélagið veitir og að lokum fékk Þórunn  verðlaun fyrir góðan námsárangur í raungreinum sem eru gefin af  Háskólanum í Reykjavík.