Vel tekið á móti nýnemum í Menntaskóla Borgarfjarðar

RitstjórnFréttir

Frá því skólinn hóf göngu sína hafa hefðbundnar busavígslur ekki tíðkast í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þess í stað hefur nýnemum verið boðið í haustferð ásamt eldri nemendum og kennurum. Að þessu sinni var þó bætt um betur því þriðjudaginn 28. ágúst síðastliðinn buðu eldri nemar nýnema sérstaklega velkomna í skólann. Stjórn nemendafélagsins sá um undirbúning dagsins. Sérstakar gönguleiðir voru merktar til þess að auðvelda nýnemum að rata um skólann og gættu eldri nemendur þess að þeir héldu sig á réttri leið. Eftir hádegið var keppt í sápubolta á skólalóðinni og boðið upp á grillaðar pylsur. Allir nemendur fengu svo frítt í sund að loknum sápuboltanum.

Nýnemaferðin verður svo farin fimmtudaginn 30. ágúst. Lagt verður af stað til Reykjavíkur um hádegið og þar verður farið í stigakeppni og keilu. Að því loknu verður farið út að borða. Áætlað er að hópurinn verði kominn í Borgarnes um áttaleytið á fimmtudagskvöld.