Nemendur og kennari í Ráðhúsi Reykjavíkur

Vettvangsferð í félagsfræði

RitstjórnFréttir

Nemendur og kennari í Ráðhúsi Reykjavíkur

Námshópur í félagsfræði 304, sem er stjórnmálafræðiáfangi ákvað á dögunum að halda í vettvangsferð. Valið var að fara til Reykjavíkur að heimsækja Valhöll, höfuðvígi Sjálfstæðismanna, skrifstofur Samfylkingarinnar og Ráðhús Reykjavíkur. Afar vel var tekið á móti hópnum á öllum stöðunum. Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og Borgnesingur tók á móti hópnum í Valhöll. Hann, ásamt Sigríði, kynningar- og upplýsingafulltrúa flokksins ræddu í dágóða stund við hópinn. Eftir hádegishlé var haldið á skrifstofur Samfylkingarinnar. Þar ræddi Helgi Hjörvar, þingmaður flokksins, ásamt stjórn Ungra jafnaðarmanna við hópinn. Einnig var þar farið í nokkurs konar skoðanaleik þar sem ungliðarnir báru fram fullyrðingar og nemendur áttu að vera sammála eða ósammála fullyrðingunum og færa rök fyrir máli sínu. Loks var farið í Ráðhús Reykjavíkur þar sem Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi, og Anna Karen, kynningarfulltrúi Reykjavíkur tóku á móti hópnum í fundarsal borgarstjórnar. Ferðin gekk afar vel í alla staði og var fátt annað rætt en stjórnmál á bakaleiðinni. Þá verður unnið úr ferðinni í svokölluðum nemendavikum í stjórnmálafræðinni. Kennari hópsins er Ívar Örn Reynisson. Á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur og kennara í fundarsal Ráðhúss Reykjavíkur.