Síðastliðinn miðvikudag fóru nemendur í félagsfræði 304, sem er stjórnmálafræðiáfangi, í vettvangsferð til Reykjavíkur. Fyrst var farið í skoðunarferð á Alþingi þar sem þingmaðurinn Siv Friðleifsdóttir tók á móti hópnum og ræddi opinskátt um starf þingmannsins. Í hádegishléinu var farið á Háskólatorg þar sem útskrifaðir stúdentar frá MB tóku á móti hópnum og fræddi hann um háskólalífið og undirbúninginn sem MB veitti þeim. Fyrsta stopp eftir hádegi var Mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem Katrín Jakobsdóttir, ásamt sérfræðingum ráðuneytis spjallaði við hópinn. Rúsínan í pylsuendanum var svo heimsókn til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta lýðveldisins á Bessastaði. Fyrst var farið í kirkjuna og kjallarann, þar sem búið er að grafa upp fornminjar. Þá voru ýmsar gjafir skoðaðar áður en forsetinn bauð til kaffisamsætis. Hann ræddi vel og lengi við nemendur og liðið var á kvöld þegar komið var aftur í Borgarnes. Ferðir sem þessar eru mikilvægur hluti af náminu og gefa nemendum tækifæri til að kynnast fólkinu sem stýrir landinu.