Forsetinn og nemendur MB

Vettvangsferð stjórnmálafræðinema

Ritstjórn Fréttir

Forsetinn og nemendur MBNemar í félagsfræði 304 héldu í gær ásamt kennara sínum í vettvangsheimsókn til Reykjavíkur. Heimsóknin var liður í námi í stjórnmálafræði og voru valdastofnanir þjóðarinnar skoðaðar. Fyrst var veitt leiðsögn um löggjafarsamkunduna Alþingi. Þingmenn eru þessa vikuna í kjördæmaviku svonefndri og var því rólegt og fámennt í Alþingishúsinu. Fengu nemendur ágætis fræðslu bæði um húsið, starfsemina og hlutverk löggjafarþingsins í stjórnkerfi Íslands.
Eftir hádegi heimsótti hópurinn síðan forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson á Bessastaði og átti langt og ítarlegt spjall við hann. Meðal þess sem bar á góma var málskotsréttur forseta, aðskilnaður ríkis og kirkju og ekki síst stjórnarskrá landsins og stjórnlagaþingið. Forseti veitti nemendum víða innsýn inn í þessi málefni og það er óhætt að segja að þeir hafi þar notið fræðimennsku forsetans til hins ítrasta. Þetta er í þriðja sinn sem nemendur MB koma í heimsókn til forseta lýðveldisins á Bessastaði og er óhætt að segja að heimsóknin sé hápunktur annarinnar í faginu.