Við áramót

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Við áramót er eðlilegt að  einstaklingar og í okkar tilfelli skóli lítum  yfir farinn veg, horfum til baka og vegum og metum það sem gerst hefur. Það er okkur hollt að taka þetta saman til að átta okkur enn frekar á okkar umhverfi og stöðu og ekki síst til að leggja grunn að því sem koma skal og ákveða næstu skref. Næstu skref eru alltaf mikilvægust en þau eru tekin með fortíð sem fóður og framtíð sem áskorun.

Þegar við lítum til baka yfir árið 2022 þá má glöggt sjá á öllu að Menntaskóli Borgarfjarðar býr við þá lukku að hann er ekki stofnun sem stendur í stað, heldur stofnun sem er í takt við sinn samtíma og tekur á móti framtíðinni.  Ég ætla hér í mjög stuttu máli og alls ekki tæmandi að fara yfir ákveðna stóra áfanga í skólastarfinu, til að minna okkur á hvað fram hefur farið og einmitt með það fyrir augum að á þessari áræðni eigum við að byggja áfram.

Við upphaf skólaárs voru áhrif COVID enn í okkar samfélagi, við í MB gátum þó haldið skólastarfi nokkuð eðlilegu þó að mikil áhersla hafi verið á þrif, fjarlægðarmörk og sóttvarnir.  Eins var minna um stærri viðburði eða ferðalög í upphafi árs. Nokkuð var um að  nemendur og starfsfólk væru frá vegna veikinda eða í sóttkví í upphafi árs og litaði það skólastarfið mjög.  Allt gekk þetta þó yfir og mikill léttir þegar á vordögum þurfti ekki að taka tillit til þessara reglna.

Vinnustofur á miðvikudögum var eitthvað sem við í MB settum af stað í COVID sem tilraunaverkefni en þó að COVID sleppti takinu í upphafi árs 2022 þá var það meðvituð ákvörðun okkar í MB að vinnustofudagar væru komnir til að vera. Mikil ánægja hefur verið með þessa nýbreytni bæði hjá nemendum og kennurum. Ljóst er að tækifæri nemenda til að stýra sinni vinnu hafa aukist mjög en auk þess gefst nemendum gott tækifæri til að blanda saman námi og góðri samveru á þessum dögum og lítum við í MB á það sem mikilvæga afurð þessa verkefnis.

Um leið og nýjar áherslur í námi eru í innleiðingu í gegnum skólaþróunarverkefni skólans þá þótti eðlilegt að fara í andlitslyftingu á kynningarefni MB. Í samvinnu við auglýsingastofuna Hvíta húsið hefur verið „poppað“ upp á ýmislegt markaðsefni og hefur því verið vel tekið. Þessi vinna er enn i gangi og búast má við breyttri heimasíðu skólans á næstu misserum.

Frá upphafi hefur verið lagt upp með að tæknibúnaður í kennslustofum MB sé góður. Eðlis málsins samkvæmt var 15 ára búnaður farinn að láta á sjá og því voru endurnýjaðir að hluta skjávarpar í kennslustofum sem og allar tengingar við skjávarpa og þessi breyting mikið framfaraskref.  Í lok árs var svo fjárfest í fullkomnum skjá með myndavél og hljóðnema sem mun nýtast fyrir fjarfundi, teymisvinnu og fjarkennslu. Skjárinn mun verða í KVIKU nýju skapandi rými en hægt að færa hann milli rýma svo hægt sé að nýta hann í kennslu og fleiru víðar í húnsæði skólans.

Starfshópur kennara lagði til breytingar á reglum um endurtekt prófa og verkefna og liggja nú fyrir skýrari reglur hvað það varðar. (https://menntaborg.is/namid/namsmat/endurtekt-profa-verkefna/)

Á vorönn 2022 voru nokkrir „óhefðbundnir“ valáfangar í boði og frábært að sjá áhuga nemenda á áföngum eins og rafíþróttum og „digital illustration„ svo eitthvað sé nefnt.

Samhliða skólaþróunarverkefninu þá voru endurskoðar allar brautalýsingar skólans. Senda þurfti inn nýjar lýsingar á stúdentsbrautum til Menntamálastofnunnar. Því samhliða voru allar áfangalýsingar endurskoðaðar með það sérstaklega í huga að leggja áherslu á stafræna hönnun og miðlun í öllum áföngum. Að þessari vinnu komu allir kennarar en hana leiddi Lilja aðstoðarskólameistari. Þetta var mikil vinna og gríðarlega stór áfangi þegar MRN auglýsti á vordögum í stjórnartíðindum allar okkar brautir nýsamþykktar og við gátum innritað nemendur á þessar brautir haustið 2022.

Áframhald varð á samstarfsverkefni Borgarbyggðar, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Menntaskóla Borgarfjarðar og Vegagerðarinnar um almenningssamgöngur. En boðið er upp á morgunferðir alla virka daga yfir vetrartímann frá Varmalandsskóla og Kleppjárnsreykjaskóla í Borgarnes.  Nemendur MB geta nýtt sér þessar ferðir og mætt í skólann klukkan 09:00 á morgnana.

Við fögnuðum saman þann 1. febrúar en þá voru 15 ár frá því að Lilja aðstoðarskólameistari réði sig til starfa við MB. Lilja er með lengsta starfsaldur allra við skólann, í haust bættust svo í þennan hóp, Sigurður Örn, Veronika, Elín  og Þóra. Vissulega ein vísbending þess að MB er að verða fullorðins skóli.

MB var þátttakandi í Erasmus verkefninu  2Smart2Start sem var samstarfsverkefni ásamt Rúmeníu, Póllandi, Finnlandi og Tyrklandi og var meginþema verkefnisins hreyfing og heilsusamlegt líferni. COVID tafði framgang verkefnisins og hluti þess færðist yfir á netið, þar sem meðal annar Maggi Scheving átti stórleik. Í vor fór svo hópur nemenda ásamt Ásthildi og Elínu til Póllands í heimsókn og í kjölfarið var verkefninu lokið.

Nemendur MB settu á á vordögum á svið leikritið MEAN GIRLS. Verkið var unnið mjög hratt þar sem æfingar hófust seint til að mynda vegna COVID. Sýningin var sett upp með frábærum styrk Tónlistarskóla Borgarfjarðar og nemendur í tíunda bekk GB komu inn á lokametrunum. Agnar hjá Leynileikhúsinu stýrði verkinu. Viðtökur fóru fram úr væntingum og eftir stóð mikil ánægja þeirra sem þátt tóku og nú í haust hefur verið endurreistur leikklúbbur MB og æfingar hafnar fyrir sýningu sem sett verður a svið í vor.

Allir kennarar MB tóku þátt í rafrænni ráðstefnu um leiðsagnarnám sem haldin var í febrúar. Það samtal hefur opnað á mikla umræðu innan MB um námsmat og ljóst er að við munum vilja taka allt námsmat til endurskoðunar og verður það spennandi verkefni næstu mánuði.

Einn þáttur í tillögum starfshóps um skólaþróun var að taka upp Spannir við MB. Eftir gott samtal við nemendur og starfsfólk var ákveðið að þessi nýbreytni yrði ekki tekin upp að sinni við MB. Fyrir því voru margar og mismunandi ástæður en ekki síst sú að samhliða örðum breytingum væri ekki gott að gera þessar skipulagsbreytingar.

Í lok febrúar var MB útnefndur sem Mannréttindaskóli ársins. Mikill heiður fyrir skólann og vissulega stærsti sigurinn sá að nemendur gáfu sér tíma til að hugsa um mannréttindi og mikilvægi þeirra þó ekki væri nema þessa stuttu stund sem það tók að taka þátt. Það eru verðlaunin stóru og nú á þessum síðustu tímum er meðvitund og samhugur eitthvað sem er mjög mikilvægt að við ræktum.

Allt árið hefur verið umræða um breytta högun Nemendagarða og margt verið skoðað í þeim efnum, hvort heldur eru nýbyggingar, leiga eða kaup á eldra húsnæði. Eftir góða undirbúningsvinnu undirrituðu í haust stjórnarformenn Nemendagarða MB og Brákarhlíðar undir viljayfirlýsingu þess efnis að skapa  ramma utan um  uppbyggingaráform á Borgarbraut 63 sem er hugsuð undir nýtt íbúðarhúsnæði og nemendagarða.

Stór áfangi var í byrjun mars þegar að fyrsti áfanginn í áfangakeðjunni Lífsnám var kenndur við skólann. Fyrsti áfanginn var ALLS-KYNS og gekk þessi frumraun mjög vel. Nemendur mættu mjög vel og afurðir voru svo til sýnis í lok vikunnar. Annar áfangi Lífsnámsins var svo nú í haust en þá var kenndur áfanginn GEÐ-HEIL. Kennsla þessara áfanga var fyrsta skrefið af mörgum í innleiðingu skólaþróunarverkefnis MB.

Í mars buðum við nemendum úr grunnskólum Borgarbyggðar í heimsókn, eins var nemendum grunnskóla á Akranesi boðið að koma, það er í fyrsta sinn sem nemendumtíunda bekkjar á Akranesi er boðið í skólaheimsókn í MB. Mjög vel var látið af þessum heimsóknum, enda hafði allt starfsfólk MB undirbúið þær mjög vel og tóku á móti nemendum og kynntu skólann ásamt nemendum MB.

Þegar líða tók á vorönnina þá efldist starf NMB til muna, enda samkomutakmörkunum aflétt. Margt var gert en til að mynda stóð NMB fyrir mjög fjölmennri skíðaferð og við áttum þátttakanda í Söngkeppni framhaldsskólanna sem stóð sig frábærlega. Þann 24. mars var árshátíð NMB haldin og án allra samkomutakmarkana. Mjög góð skemmtun þar sem skemmta sér saman nemendur og starfsfólk. Kosning til stjórnar NMB fór fram í apríl og voru mörg framboð, og sérlega gleðilegt að sjá áhuga allra á starfi NMB.

Á vordögum fékk MB 2,0 milljónir í styrk frá Þróunarsjóði námsgagna til gerðar STEAM námsefnis. Frábær styrkur til þeirrar vinnu og ekki síst góð viðurkenning á okkar starfi.

Kvikan sem er náms- og kennslurými fyrir fjölbreytta og skapandi vinnu var sett á laggirnar árið 2022. Í Kvikunni er að finna mynd- og hljóðver þar sem hægt að er að taka upp, vinna myndbönd og hljóð og ganga frá stafrænu efni á faglegan hátt. Einnig hýsir Kvikan opið fjölnota rými sem styður við nýsköpun og þróun frumgerða á hugmyndum með því að bjóða aðgang að verkfærum eins og þrívíddarprenturum, laser skerum, vinyl skerum, pressum og saumavélum og rými til listsköpunar.

Í sumar var ráðinn umsjónaraðili Kviku,Valdís Sigurvinsdóttir og spilar ráðning hennar stóran þátt í því að rýmið er nú tilbúið til notkunar. Eins hefur verið gerður samningur við Borgarbyggð um afnot þeirra að Kviku. Sá samningur styrkir enn frekar starfið í Kviku.

Á vordögum fékk MB úthlutun úr Uppbyggingasjóði Vesturlands upp á 2,5 milljónir til áframhaldandi uppbyggingar Kviku.  Mikilvægt framlag til uppbyggingarinnar.

Á vordögum skrifaði Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra  undir viljayfirlýsingu þess efnis að  Mennta og barnamálaráðuneyti standi við bakið á skólaþróunarverkefni okkar í MB. Ljóst er að stuðningur Barna- og menntamálaráðuneytis við verkefnið er ómetanlegur fyrir MB.

Í maí tóku Lilja og Signý sig saman um að skrifa  grein í Skólaþræði um verkefnið okkar og hlaut sú grein mikla og jákvæða athygli. Sjá hér; https://skolathraedir.is/2022/05/16/framtidind-er-her-innleiding-steam-nams-og-kennslu-i-menntaskola-borgarfjardar/

Útskrift frá Menntaskóla Borgarfjarðar fór fram þann 27. maí. Falleg athöfn og hópurinn stór, hátíðarávarp flutti Heiðrún Helga, nú sóknarprestur á Borg.

Aðalfundur MB var haldinn 16. júni. Þar urðu þær breytingar í stjórn að Helena Guttormsdóttir gekk úr stjórn og í stað hennar kom Bjarki Grönfeldt. Eins var Helgi Haukur Hauksson kjörinn formaður stjórnar og Inga Dóra Halldórsdóttir varaformaður.

Haustönn byrjaði þann 17. ágúst og þriðja árið í röð fjölgaði nemendum en aldrei hafa fleiri nemendur hafið nám við MB eins og á haustönn 2022. Vissulega frábær áfangi og verður gaman að fylgja þessari fjölgun eftir. Nokkur fjölgun er meðal fjarnema en einnig meðal staðnema og er það vissulega stefna MB að fjölga staðnemum enn frekar næstu árin.

Samstarf við KVAN heldur áfram og hingað komu leiðbeinendur frá KVAN og tóku bæði nemendur og kennara í kennslu.

Skráning í mötuneytið MB er mjög góð og ekki hafa verið jafn margar máltíðir seldar í nóvember áður hér við skólann. Bæði er því að þakka að mikil ánægja er með frábæran mat og einnig því að nemendur sjá alltaf fleiri og fleiri kosti við það að staldra við í húsnæði skólans og njóta samvista hvert með öðru. Góð þróun á skólabrag.

Starf NMB á haustönn hefur verið með ágætum. Mikið af smærri viðburðum og farið á stærri samkomur á Akranes. Gettu betur lið MB æfir af kappi fyrir fyrstu keppni ársins 2023 undir styrkri stjórn Ólafar. Leikfélagið er á fullu og lengi mætti telja.

Við sem störfum við MB finnum fyrir miklum áhuga utanaðkomandi aðila á starfinu, það endurspeglast í því að við starfsfólk höfum tekið a móti mjög mörgum gestum hingað í skólann sem og farið víða til að kynna okkar starf. Þetta er gríðarlega  mikilvægur hluti af okkar starfi og um leið mjög gefandi fyrir okkur sem því sinnum.

Líkt og áður einkennist desember mánuður af gleði, uppbroti og samveru í bland við að ljúka kennslu og námsmati. Síðustu kennsluviku ársins var til að mynda náttfataþema hjá skemmtinefnd NMB, kaka og kakó í tíu kaffinu, jólapeysudagur og opið hús hjá skemmtinefnd um kvöldið. Að lokum var svo  sparifatadagur hjá öllum , árgangakeppni  milli 09-12 og svo jólamatur í hádeginu. Þann 14. desember.

Margt hér að ofan tengist skólaþróunarverkefni MB á einn eða annan hátt. Því verkefni hefur verið og er stýrt af Signý Óskarsdóttur.  Mjög stór hluti þess verkefnis er STEAM nám og kennsla í MB þar sem samþætt eru vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði í gegnum viðfangsefni nemenda.

Undanfarna mánuði hefur starfsfólk skólans ásamt fulltrúum íslenskra háskóla unnið að skipulagi þess náms og námsefnisgerð. Í janúar hefst kennsla á fyrsta áfanganum þar sem reynir á námsefnið og aðferðirnar sem mótaðar hafa verið.  Í STEAM nálgun MB er lögð áhersla á að þjálfa nemendur í að nota hönnunarhugsun, greinandi hugsun, gagnrýna hugsun, skapandi hugsun og vísindalega hugsun og ekki síst sjálfstæða hugun og um leið átta sig á þeim aðferðum og verkfærum sem hægt er að nota við úrlausn margþættra verkefna. Með því að styðjast við eflandi kennslufræði er horft til þess að hjálpa nemendum að öðlast kjark til þess að vera nýskapandi og fylgja eigin hugmyndum eftir, efla samkennd þeirra og skilning á aðstæðum og áskorunum sem er að finna í nærsamfélagi sem og á alþjóðavettvangi t.d. með því að hafa alltaf í huga sjálfbærni með áherslu á umhverfi, fólk, félags- og efnahagslega þætti.

Það er svo óhætt að segja að hápunktur ársins hafi verið þann 2. nóvember þegar Menntaskóli Borgarfjarðar fékk hvatningarverðlaun íslensku menntaverðlaunanna fyrir framsækna endurskoðun á námskrá. Frábær viðurkenning sem gefur okkur öllum byr í seglin.

 

Hér hefur verið farið á hundavaði yfir margt af því markverðasta á almanaksárinu 2022. Það er ljóst að árið hefur verið um margt frábært og skólinn að uppskera eftir góða undirbúningsvinnu skólaþróunar síðustu ár.

Það verður áfram fjör í MB, við verðum áfram skólinn sem fer ótroðnar slóðir.

 

Gleðilegt ár

Bragi Þór Svavarsson