Viljayfirlýsing

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Í dag skrifaði Ásmundur Einar Daðason undir formlega yfirlýsingu um stuðning ráðuneytisins við skólaþróunarverkefni Menntaskóla Borgarfjarðar. Með því er Mennta- og barnamálaráðherra að sýna í verki hversu mikilvægt hann telur að styðja við og fjármagna frumkvæði og nýsköpun í skólastarfi.

MB vinnur að skólaþróunarverkefninu Menntun fyrir störf framtíðar og hluti af því verkefni er að innleiða STEAM nám og kennslu við skólann. STEAM samanstendur af vísindum, tækni, verkfræði, listsköpun og stærðfræði. Ákveðið hefur verið að STEAM áfangar verði skylduáfangar á öllum brautum til stúdentsprófs við MB.

 

Við þróun STEAM áfanga, námsefnis og kennsluaðferða hefur verið settur á laggirnar samstarfsvettvangur um innleiðingu STEAM náms og kennslu á framhaldsskólastigi. Allir háskólar landsins taka þátt í þeim vettvangi ásamt MB og öðrum sérfræðingum í menntamálum.

Nýsköpun og rannsóknir eru mikilvægar í skóla þróun og stefnt er að því að nemendur, kennarar og rannsakendur beggja skólastiga verði þátttakendur í þróun og innleiðingu til næstu ára.

 

Það er mikil viðurkenning fyrir MB að fá formlegan stuðning ráðuneytisins við skólaþróunarverkefnið og mun sannarlega hvetja til frekari dáða í nýsköpun á framhaldsskólastiginu.