Vorönn 2021

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Árið 2021 bíður okkar og við lítum björtum augum til vorannarinnar. Viðbúið er að upphaf annar markist af breyttum kennsluháttum til að hlíta samkomutakmörkunum. Við hins vegar trúum og treystum því að skólastarf og félagslíf færist í hefðbundnara form þegar sól hækkar á lofti.

Frá stofnum MB hefur skólinn leitast við að aðlaga sig breyttum aðstæðum, menningu og tíðaranda. Frá stofnun hefur stundaskrá skólans lítið verið breytt, við höfum unnið eftir fyrirkomulagi sem hefur gengið ágætlega. Við í MB höfum þó ákveðið að gera breytingar á skipulagi skólastarfs frá og með vorönn 2021, bæði í ljósi þess að við erum skóli sem vill ekki staðna og til að vera sem best undir hugsanlegar takmarkanir á skólahaldi búin.

Þessar breytingar snúa bæði að skipulagi kennslustunda og stundaskrár. Með breytingunum stefnum við að því að efla ákveðna þætti bæði í  kennslunni og í námi nemenda, m.a. með svokölluðum vinnustofum sem gefa kennurum tækifæri til að sinna öllum nemendum betur ásamt því að nemendur fá betri tækifæri til að skipuleggja námið  eftir aðstæðum og vinnuálagi hverju sinni.

Við teljum að breytingin verði til þess að  auka samvinnu innan kennarahópsins og meðal nemenda, styrkja sjálfstæð vinnubrögð nemenda og auka tengsl nemenda og kennara. Við viljum að nemandinn fái enn persónulegri leiðsögn og möguleika á að ráða nokkru um skipulag síns náms. Það er einlæg trú okkar að með þessum breytingum séum við að auka gæði náms og gera góðan skóla enn betri.

Stundaskrá á vorönn 2021 verður skipulögð þannig að hver kennslustund verður 60 mínútur í stað 40 mínútna, hingað til hafa verið kenndar tvær 40 mínútna kennslustundir samliggjandi í töflu. Fag sem hingað til hefur verið kennt þrisvar sinnum í viku í 2×40 mínútur í senn fær þannig frá og með næstu önn fjórum sinnum 60 mínútur. Nemendur fá því áfram sama mínútufjölda á viku. Auk þess mun stundaskrá verða stillt upp þannig að hefðbundin kennsla fer fram þrjá daga í viku en tvo daga vikunnar verða vinnustofur í MB þar sem nemendur geta að miklu leyti sjálfir skipulagt daginn sinn og hvaða verkefnum þeir ætla að vinna að í hvert sinn. Sem dæmi mun sex eininga áfangi verða kenndur með tveimur 60 mínútna kennslustundum og tveimur vinnustundum í stundaskrá.  Tekið skal fram að vinnustofur munu nýtast nemendum til vinnu verkefna en einnig mun skólinn stuðla að  þverfaglegri vinnu milli áfanga, fá gesti í skólann, efla félagslíf og fleira í þeim dúr.

Stundaskrá mun birtast nemendum  í INNU í upphafi næsta árs og í upphafi annar verður skipulagið kynnt ítarlegar ásamt reglum um skólasókn.